Innlent

Clinton á gangi um miðbæinn

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fór á Þingvelli fyrir hádegi og fékk leiðsögn Sigurðar Líndal prófessors. Síðar í dag mun hann hitta forsætisráðherra, forseta Íslands og utanríkisráðherra. Clinton segir íslensku ráðamennina ráða umræðuefninu. Frá hádegi hefur Clinton verið að skoða sig um í Reykjavík, bílalest hans ók að Alþingishúsinu, þar fór hann út úr bílnum og skoðaði styttuna af Jóni Sigurðssyni og heilsaði upp á fólk á Austurvelli. Því næst fór hann í bókabúð Eymundssons sem fylltist snarlega af fólki. Öryggisverðir hans hafa verið á hlaupum á eftir forsetanum fyrrverandi sem virðist ráfa um miðbæ Reykjavíkur stefnulaust. Clinton fór úr bókabúðinni að Vesturgötu þar sem hann skoðaði íslenskt handverk í búðinni Kirsuberjatréð. Að sögn Ólafar Erlu, sem starfar í versluninni, var koma forsetans afar óvænt. Fyrst komu öryggisverðir inn og litu í kringum sig og svo Bill Clinton sjálfur. Hann var hann mjög hrifin af skálum úr pappamassa með lituðum grænmetissneiðum eftir Valdísi Harrýsdóttur og keypti nokkrar skálar. Nú rétt fyrir fréttir var Clinton kominn í Listasafn Reykjavíkur. Clinton er í einkaheimsókn á Íslandi og virðist skemmta sér hið besta. Hann lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan níu í morgun, en hann er á leið til Írlands að kynna og árita ævisögu sína. Eiginkona hans, Hillary Clinton öldungardeildarþingmaður, er hér með sendinefnd úr þinginu sem er á ferðalagi um Norður-Evrópu að kynna sér umhverfisvænar orkulindir. Í viðtali við fréttamann Stöðvar tvö í morgun sagði Bill að þau hjónin væru afar hrifin af Íslandi og að hann hefði ákveðið að sækja hana á leiðinni til Írlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×