Innlent

Tafir vegna fjárhagserfiðleika

Framkvæmdir við íþróttamannvirki í Salahverfi í Kópavogi hafa tafist um meira en ár vegna fjárhagserfiðleika aðalverktakans. Nokkrar beiðnir um að verktakafyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta liggja fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en fyrirtækið tapaði stórfé á því að byggja Barnaspítala Hringsins.  Í janúar árið 2003 undirritaði Sigurður Geirdal, bæjarstjóri Kópavogs og framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Ólafur og Gunnar Byggingafélag samning um að frágang sundlaugar í Salahverfi. Mannvirkið er stórt, ein innisundlaug og ein útisundlaug og fékk ÓG bygg verkið fyrir 407 milljónir króna, eða 48 milljónum undir kostnaðaráætlun. Þá var fyrirhugað að sundlaugarnar skyldu opnaðar í september í fyrra. Í júní í sumar skrifaði Gunnar Birgisson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs grein í Morgunblaðið þar sem hann fullyrti að sundlaugarnar yrðu opnaðar í síðasta mánuði. Það gerðist ekki og nú er verkið orðið heilu ári á eftir áætlun. Sigurður Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi segir að verktakinn hafi lent í verulegum rekstrarerfiðleikum á síðustu mánuðum og þess vegna hefðu allar áætlanir farið úr skorðum. Hann segir að nú sé útlit fyrir að innisundlaugin opni í næsta mánuði og útisundlaugin um áramót. Fréttastofa fékk það staðfest í dag að nokkrar beiðnir um að ÓG Bygg verði úrskurðað gjaldþrota liggi hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en ekki hefur verið úrskurðað í þeim ennþá. Samkvæmt heimildum fréttastofu má rekja rekstrarerfiðleika fyrirtækisins til þess að það var aðalverktaki við byggingu Barnaspítala Hringsins. Heimildarmenn fréttastofu segja fyirtækið hafa undirboðið í verkið og tapað að minnsta kosti 100 milljónum á því. Sigurður Geirdal segir að þrátt fyrir þetta sé hann vongóður um að ÓG bygg nái að ljúka við byggingu sundlauganna í Salahverfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×