Innlent

Stefndi í stjórnarkreppu

Svanhildur Árnadóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar, segir að fulltrúar bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi slegið af sínum kröfum hvað varðar skólamál í Dalvíkurbyggð, því allt hafi stefnt í stjórnarkreppu í sveitarfélaginu. "Sú staða var uppi að I-listi og Framsókn náðu ekki samkomulagi. Oddviti I-lista var búinn að afboða fund við mig síðasta sunnudag, hálftíma fyrir fund, og sagði tilgangslítið að ræða við okkur." Því hafi lítið annað verið í stöðunni en að hefja meirihlutasamstarf að nýju. Á næsta bæjarstjórnarfundi verður skipað í nefnd sem mun fjalla um framtíð Húsabakkaskóla og mun starfa til 31. janúar. Áður en slitnaði upp úr samstarfinu kröfðust sjálfstæðismenn þess að ákvörðun yrði tekin strax um að sameina rekstur skólans við Dalvíkurskóla á næsta skólaári. Framsóknarflokkur vildi skipa nefnd sem hefði málið til umfjöllunar til 31. mars. Á síðasta ári var tæpum 194 milljónum eytt til fræðslu- og uppeldismála í sveitarfélaginu, sem er um 30 prósent af tekjum þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×