Innlent

Umhleypingasamur nóvember

Nóvember var nokkuð umhleypingasamur á landinu og hitasveiflur miklar, að því er fram kemur í stuttu tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar. Hiti var yfir meðallagi, þrátt fyrir að mikið kuldakast hafi gert 15. til 20. dags mánaðarins. Meðalhiti í Reykjavík mældist 2,2 stig, en það er sagt 1,1 stigi ofan meðallags. "Frost í Reykjavík fór í 15,1 stig aðfaranótt 19. og hefur svo mikið frost ekki mælst þar síðan í janúar 1981 og hitinn er sá lægsti í Reykjavík í nóvember frá 1893, en þá mældist frostið 17,4 stig," segir í tilkynningu Veðurstofunnar. "Á Akureyri var meðalhiti í nóvember 0,0 stig og er það 0,4 stigum ofan meðallags. Frost fór mest í 15 stig á Akureyri. Í Akurnesi var meðalhitinn 1,9 stig, en -3,7 á Hveravöllum." Úrkoma í Reykjavík mældist 113 millimetrar, rúmlega helmingi yfir meðallagi, en á Akureyri mældist úrkoma 62 millimetrar, 15 af hundraði umfram meðallag. Að sögn Veðurstofunnar telst haustið (október og nóvember) hafa verið nokkuð umhleypingasamt, þótt tíð hafi verið fremur hagstæð. "Hiti var í rétt rúmu meðallagi, úrkoma nokkuð yfir meðallagi, en sólskinsstundir ekki fjarri meðallagi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×