Innlent

Klór geymdur á opnu svæði

Fimmtán prósenta klór var geymdur úti á plani við Vesturvör í Kópavogi og var öllum aðgengilegur. Eigandi efnanna er fyrirtækið Mjöll-Frigg ehf. sem hefur sótt um leyfi fyrir klórgasframleiðslu og lagerhalds hjá Kópavogsbæ. Lögreglan hefur beðið forráðamann fyrirtækisins að fjarlægja klórinn. Varðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi segir ekki leyfilegt að geyma efni eins og klór við þessar aðstæður. Efnið sé ætandi og því hættulegt og þarna hafi það verið hverjum sem er aðgengilegt. Klórbrúsarnir hafi verið meðfærilegir og því hefðu börn auðveldlega getað opnað þá og komist í snertingu við klórinn. Ómar Stefánsson, borgarfulltrúi í Kópavogi, fór að Vesturvör í gær, þar sem fyrirtækið hefur aðstöðu. Að eigin sögn var hann þar á ferð til að undirbúa sig fyrir fund á morgun þar sem leyfisbeiðni fyrirtækisins verður tekin fyrir. Ómar undraðist að efnin væru þarna geymd í brúsum sem auðvelt væri að skrúfa lokið af. Hann benti á að á klórbrúsa sem keyptur væri úti í búð væri sérstakt öryggislok. Fleiri efni, til dæmis iðnaðarhreinsir og sápur, voru geymd þarna á sama stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×