Innlent

Staða Samfylkingar óásættanleg

Staða Samfylkingarinnar innan Reykjavíkurlistans er óásættanleg miðað við fylgi flokksins í borginni. Þetta kom fram í máli Andrésar Jónssonar, formanns Ungra jafnaðarmanna, á fundi Samfylkingarfélags Reykjavíkur í gærkvöld þar sem rætt var um Reykjavíkurlistann, árangur hans og framtíð. Andrés segir að ef fylgi Samfylkingarinnar í síðustu Alþingiskosningum sé skoðað komi í ljós að flokkurinn eigi í fullu tré við Sjálfstæðisflokkinn. Miðað við fylgið í kosningunum megi búast við því að flokkurinn fengi sex borgarfulltrúa af fimmtán en nú eru tveir borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans frá Samfylkingu. Miðað við sömu forsendur fengi Sjálfstæðisflokkur einnig sex fulltrúa og Framsóknarflokkur, Vinstri grænir og Frjálslyndir einn borgarfulltrúa hver. "Þetta hlýtur að vera eitthvað sem Samfylkingarfólk í Reykjavík þarf að skoða vandlega þegar tekin verður afstaða til þess hvort við höldum áfram samstarfi um R-lista," segir Andrés. "Það er ljóst að ekkert samstarf er eilíft og ég skil það að sumum finnist þreyta komin í það. Það er ljóst að það þarf að verða talsverð hugmyndafræðileg endurnýjun. Annars fara flokkarnir fram hver í sínu lagi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×