Innlent

Vill ekki til Finnlands

Bandarískur maður sem handtekinn var þegar hann kom með Skógarfossi, skipi Eimskipafélagsins, til landsins á mánudagskvöld hafnar því að vera framseldur til Finnlands. Maðurinn hefur verið eftirlýstur í Finnlandi fyrir að hafa numið dóttur sína á brott seinni hluta ársins 2001. Smári Sigurðsson hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, segir barnsmóður mannsins, sem er finnsk, hafa forræði yfir dótturinni og því hafi maðurinn brotið lög þegar hann fór með hana til Bandaríkjanna. Síðar var dótturinni skilað aftur til móðurinnar í Finnlandi og er þar nú. Maðurinn var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á meðan framsalsgagna er aflað en að því koma dómsmálaráðuneytið og ríkissaksóknari. Smári segir að í framhaldinu verði væntanlega tekin ákvörðun um hvort, og þá hvenær, maðurinn verði framseldur. Hann segir alþjóðadeildina fara yfir áhafnalista allra skipa annarra en fiskiskipa, og við þá athugun hafi komið í ljós að maðurinn væri eftirlýstur. Maðurinn var að koma með Skógarfossi frá Norður Ameríku og ekki er annað vitað en hann hafi verið á leið hingað til lands að sögn Smára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×