Innlent

Afli lítill - veðrið vont

Eftir ágætis síldarafla á Halamiðum á dögunum hefur gamanið kárnað og varla dregist bein úr sjó. Ástandið kemur Freysteini Bjarnasyni, útgerðarstjóra Síldarvinnslunnar, ekki á óvart. "Það er þekkt að ef eitthvað er hrært í þessari stóru síld þá styggist hún og dreifir sér." Spáð er vitlausu veðri á miðunum næstu daga og skip því komin annað, jafnvel í land. Allt eins er mögulegt að síldin þjappi sér í torfur á meðan óveðrið gengur yfir og verði veiðanleg þegar því slotar. Einnig er rólegt yfir kolmunnaveiðum þessa dagana þó að einstaka skip hafi fengið slatta og slatta. "Hann er eitthvað að stríða okkur," segir Freysteinn útgerðarstjóri um kolmunnann. Uppsjávarveiðarnar hafa því verið fjörlitlar að undanförnu en í ofanálag ríkir bann við loðnuveiðum. Freysteinn er þó bjartsýnn, líkt og vanalega. "Já,já, öll él birtir upp um síðir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×