Innlent

Örlög hafnargarðsins ráðast fyrir helgi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tillögur ráðuneytisins miða að því að hluti hafnargarðsins verði varðveittur.
Tillögur ráðuneytisins miða að því að hluti hafnargarðsins verði varðveittur. visir/gva
Forsætisráðuneytið hefur lagt fram sáttatillögu vegna hafnargarðsins á Austurbakka sem forsvarsmenn Landstólpa hyggjast nú skoða. Líklegt þykir að niðurstaða um varðveislu hafnargarðsins náist fyrir helgi.

Sáttafundi á milli forsvarsmanna forsætisráðuneytisins og forsvarsmönnum Landstólpa lauk fyrir skömmu og staðfesti Gísli Steinar Gíslason, forstjóri Landstólpa, í samtali við Vísi að ráðuneytið hefði lagt fram sáttatillögur.

„Það komu fram tillögur frá forsætisráðuneytinu og við erum opnir fyrir þessum tillögum,“ en Gísli er ánægður með að hreyfing sé kominn á málið. „Við höfum alltaf verið til í að skoða lausnir og það er gott að ráðuneytið sé nú komið að borðinu og allir farnir að tala saman.“

Garðurinn var reistur í tengslum við hafnargerð í Reykjavík á árunum 1913 til 1917.Vísir/GVA
Varðveita hluta hafnargarðsins

Að sögn Gísla snúast tillögurnar um að varðveita hluta hafnargarðsins og nú munu forvarsmenn Landstólpi taka sér nokkra daga til þess að skoða tillögurnar. Líklegt er að niðurstaða fáist fyrir helgi en þangað til mun Landstólpi ekki hrófla við hafnargarðinum sjálfum.

„Þetta er svolítið flókið vegna þess að þegar hönnun fer á flot þarf maður að átta sig á afleiðingunum að því. Þetta tekur einhverja daga en ég hugsa að þetta ætti að skýrast fyrir helgina,“ sagði Gísli.

Verið að skoða tillögurnar með jákvæðum hug

Sigurður Örn Guðleifsson, settur skrifstofustjóri menningararfs í forsætisráðuneytinu, sat fundinn fyrir hönd ráðuneytisins og náði Vísir tali af honum.

„Það hafa komið tillögur frá forsætisráðuneytinu og það er verið að skoða þær með jákvæðum hug. Ég vil hins vegar ekki greina frá því hvað þessar tillögur ganga út á á þessum tímapunkti á meðan báðir aðilar eru að meta þessar hugmyndir sem eru fram komnar,“ sagði Sigurður Örn.

Er eitthvað tekið tillit til viðskiptalegra hagsmuna Landsstólpa í þessum tillögum ykkar?

„Ég vil ekki ganga lengra en að segja þetta.“


Tengdar fréttir

Stál í stál í deilu um meintar fornminjar

Stál mætir stáli í deilu ríkisins og Reykjavíkurborgar um hafnargarðinn á Austurbakka. Sáttafundur er boðaður á morgun en framkvæmdir hófust þó að nýju í dag. Sagnfræðingur segir alveg ljóst að garðurinn teljist ekki vera fornminjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×