Enski boltinn

Moses hetja Stoke | Barton fékk rautt í tapi QPR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ron Vlaar brýtur á Victor Moses.
Ron Vlaar brýtur á Victor Moses. vísir/getty
Sex leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Swansea vann Manchester United öðru sinni á leiktíðinni, Arsenal komst upp í þriðja sætið með sigri á Crystal Palace og nýliðar Burnley náðu í óvænt stig á Brúnni.

Aston Villa tapaði 1-2 fyrir Stoke á heimavelli í fyrsta leik liðsins undir stjórn Tims Sherwood.

Scott Sinclair, lánsmaður frá Manchester City, kom Villa yfir á 20. mínútu eftir sendingu frá Fabian Delph.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks jafnaði Senegalinn Mame Biram Diouf metin með skalla eftir fyrirgjöf frá Stephen Ireland og þannig var staðan þar til í uppbótartíma.

Þá braut Ron Vlaar, fyrirliði Aston Villa, á Victor Moses innan vítateigs. Dómarinn benti á vítapunktinn og rak Vlaar út af. Moses tók spyrnuna sjálfur, skoraði af öryggi og tryggði Stoke sinn þriðja sigur í síðustu fimm leikjum.

Hull City náði í sitt sjöunda stig í síðustu þremur leikjum þegar liðið vann QPR 2-1 á heimavelli.

Nikica Jelevic kom Hull yfir á 16. mínútu með sínu 8. deildarmarki í vetur.

Á 32. mínútu fékk ólátabelgurinn Joey Barton að líta rauða spjaldið en aðeins sjö mínútum síðar jafnaði Charlie Austin metin eftir sendingu frá Matt Philipps.

Þetta var 14 mark Austins í 23 deildarleikjum en hann er í hópi markahæstu leikmanna úrvalsdeildarinnar.

Það var síðan Dame N'Doye sem skoraði sigurmarkið einni mínútu fyrir leikslok.

Hull er komið upp í 15. sæti með 26 stig, en QPR er í því 17. með 22 stig.

Sunderland gerði sitt 13. jafntefli í vetur þegar West Brom kom í heimsókn á Ljósvang.

Ekkert mark var skorað en liðin hittu aðeins samtals þrisvar sinnum á markið í öllum leiknum.

West Brom, sem hefur aðeins tapað einum af síðustu sex leikjum sínum, er í 14. sæti með 27 stig, tveimur stigum meira en Sunderland sem er í 16. sæti.

Úrslit dagsins:

Swansea 2-1 Manchester United

Crystal Palace 1-2 Arsenal

Chelsea 1-1 Burnley

Aston Villa 1-2 Stoke City

Hull City 2-1 QPR

Sunderland 0-0 West Brom




Fleiri fréttir

Sjá meira


×