Innlent

Skoða hefði átt að loka Ísaksskóla og senda nemendur í aðra skóla

Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir
Borgarfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á að borgin geti reitt fram rúmar 180 milljónir króna til að kaupa Ísaksskóla á sama tíma og hart er skorið í skólakerfinu. Hún telur að skoða hefði átt gaumgæfilega að loka skólanum og tryggja nemendum vist í öðrum skólum.

Sýslumaðurinn í Reykjavík auglýsti nauðungaruppboð á Ísaksskóla við Bólstaðarhlíð í mars árið 2009, vegna skulda við Reykjavíkurborg, að því er fram kom á Eyjunni á sínum tíma. Er því ljóst að skólinn hefur um nokkurt skeið átt í fjárhagskröggum. Borgarráð ákvað í síðustu viku að koma honum til bjargar með því að kaupa húsnæði skólans og leigja það síðan áfram til þessa einkarekna barnaskóla sem hefur nú starfað óslitið í 85 ár.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, gagnrýnir kaupin. „Fyrst og fremst vegna þess að fjárhagur borgarinnar eru mjög þröngur og skólarnir hafa þurft að ganga í gegnum harðar hagræðingaraðgerðir,“ segir Sóley og furðar sig á því borgin geti reitt fram 180 milljónir til að kaupa húsnæðið.

Hún segir að áætlaður sparnaður af hagræðingu í skólakerfinu í Reykjavík og umdeildum sameiningum skóla sé talinn um 150 milljónir króna - eða minni heldur en borgin ætlar að leggja út fyrir húsnæði Ísaksskóla.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs telur í Fréttablaðinu í morgun eðlilegra samhengi hlutanna vera að nýr skóli kosti Reykjavíkurborg allt að tvo milljarða króna. Greiðslan fyrir Ísaksskóla sé svipuð og ársleiga slíkra skóla. Það sé því ekki hátt kaupverð.

Sóley telur þetta ekki eðlilegan samanburð. „Nei, það hefur ekki staðið til að byggja nýjan skóla enda eru flestir skólarnir vel rúmir í Reykjavík,“ segir Sóley.

En hefði Sóley kosið að Ísaksskóla hefði verið lokað og nemendum hans boðin vist í sínum hverfisskólum? „Ég held að það hefði þurft að skoða það mjög gaumgæfilega.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×