Enski boltinn

Risatap eigenda Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tom Hicks og George Gillett, eigendur Liverpoool.
Tom Hicks og George Gillett, eigendur Liverpoool. Nordic Photos / Getty Images

Móðurfélag enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, sem er í eigu Bandaríkjamannanna Tom Hicks og George Gillett, tapaði háum fjárhæðum fyrri hluta síðasta árs.

Félagið tapaði 42,6 milljónum punda eða rúmum átta milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum síðasta árs. Stærsti hluti þess taps var vegna vaxtagreiðslna upp á 36 milljónir punda vegna láns sem Kop Football Holdings tók til að kaupa Liverpool á sínum tíma.

Endurskoðendur hafa varað við því að ef lánin verða ekki endurfjármögnuð fyrir 24. júlí næstkomandi mun það varpa skugga á framtíð móðurfélagsins.

Þeir Hicks og Gillett keyptu félagið í febrúar árið 2007 og lofuðu þá að byggja nýjan leikvang fyrir liðið.

Þeir segjast ætla standa við það nú en að vígsla leikvangsins hafi verið frestað til ársins 2012.

Knattspyrnufélagið sjálft skilaði hagnaði upp á 10,2 milljónir punda á sama tíma á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×