Fleiri fréttir

Sagði af sér vegna ágreinings

Domenico Siniscalco, fjármálaráðherra Ítalíu, hefur sagt starfi sínu lausu. Fjölmiðlar á Ítalíu segja ráðherrann hafa sagt upp vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar og óánægju með að seðlabankastjóra landsins hafi ekki verið sagt upp eftir að upp komst um spillingu.

Þurfti að nauðlenda vegna bilunar

Betur fór en á horfðist þegar farþegaflugvél þurfti að sveima yfir Los Angeles í þrjá klukkutíma í gær þar sem lendingarbúnaðurinn var í í ólagi. Framhjól vélarinnar sneru á hlið og ekki var hægt að ná þeim aftur inn í vélina. Töluverð ringulreið greip skiljanlega um sig og skelfingu lostnir farþegarnir gátu horft á atburðina og þar með eigin örlög í beinni útsendingu inni í vélinni.

Jekhanúrov verður forsætisráðherra

Úkraínska þingið samþykkti í dag tilnefningu Júrís Jekhanúrovs í embætti forsætisráðherra landsins í annarri tilraun Viktors Júsjenkós forseta til þess að fá hann samþykktan. Jekhanúrov tekur við embættinu af Júlíu Tímósjenkó sem forsetinn rak úr embætti fyrr í mánuðinum vegna meintrar spillingar, en Tímósjenkó og Júsjenkó fóru fyrir hinni svokölluðu appelsínugulu byltingu í landinu á síðasta ári.

Skar nef og varir af mágkonu sinni

Pakistanskur maður skar nefið og varirnar af mágkonu sinni eftir að hún hugðist sækjast eftir skilnaði frá bróður hans. Eftir því sem Reuters-fréttastofan greinir frá skaut maðurinn á konuna og bróður hennar sem voru á leið heim úr dómhúsi í Punjab-héraði á mótorhjóli. Við það féllu systkinin af hjólinu og réðst þá maðurinn á konuna og skar af henni nefið og varirnar.

Merkel og Schröder ræðast við

Gerhard Schröder, leiðtogi Jafnaðarmanna, og Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, hefja í dag stjórnarmyndunarviðræður í kjölfar kosninganna til þýska sambandsþingsins á sunnudag. Búist er við erfiðum viðræðum, en bæði Merkel og Schröder hafa fagnað góðum árangri í kosningunum og gera bæði tilkall til kanslaraembættisins.

Ríta orðin fimmta stigs bylur

Meira en milljón manns hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín með fram ströndum Texas vegna fellibylsins Rítu. Ríta er orðin að fimmta stigs fellibyl og þar með öflugri en Katrín sem reið yfir suðurströnd Bandaríkjanna í síðasta mánuði.

Óttast um líf sitt vegna Rítu

Aron Pálmi Ágústson, sem búsettur er í Beaumont í Texas, óttast um líf sitt þar sem hann fær ekki að yfirgefa heimabæ sinn þrátt fyrir yfirvofandi fellibyl. Hann er hræddur um að ef hann fái leyfi til að fara þá verði það orðið of seint.

Aron fær leyfi til að fara

Aron Pálmi Ágústson hefur nú fengið leyfi til að yfirgefa heimabæ sinn vegna yfirvofandi fellibyls en hann óttast að það sé um seinan. Aron Pálmi, sem sætir refsivist í Bandaríkjunum, býr í bænum Beaumont sem er rétt við ríkjamörk Texas og Louisiana. Hann óskaði eftir því í gær að fá að yfirgefa borgina en fékk ekki leyfi til þess vegna skilorðsins sem hann er á.

Hussein kominn til Bretlands

Osman Hussein, sem sakaður eru um að vera einn fjórmenninganna sem stóðu á bak við misheppnaðar sprengjuárásir í Lundúnum 21. júlí, kom í dag til Bretlands. Hussein, sem einnig gengur undir nafninu Hamdi Issac, var handtekinn á Ítalíu skömmu eftir tilræðin og fyrr í mánuðinum féllst ítalskur dómstóll á að hann yrði framseldur til Bretlands vegna málanna.

Saola nálgast strendur Japans

Það er víðar en í Bandaríkjunum sem fellibyljir ógna mannabyggðum. Fellibylurinn Saola nálgast nú strendur Japans og jafnvel óttast að hann fari nærri höfuðborginni Tókýó um helgina. Fellibylurinn er enn að styrkjast og stefnir á stærstu eyjar Japans og telur Veðurstofa Japans að hugsanlegt sé að Saola fari rétt austan við Tókýó.

Aron Pálmi flýgur til Austin

Aron Pálmi Ágústson er nú á leið frá heimabæ sínum Beumont í Texas. Aron hefur reynt síðan í gær að komast burtu vegna fellibylsins Ritu sem er yfirvofandi. Hann fékk fyrst leyfi fyrir nokkrum klukkutímum til þess að fara. Hann er nú á leið í rútu upp á flugvöll en hann mun fljúga til Austin í Texas.

Hefja brátt prófun á bóluefni

Fyrirtæki í Ástralíu hyggst í næsta mánuði hefja prófun á bóluefni gegn þeim stofni fuglaflensunnar sem dregið getur fólk til dauða. Að sögn talsmanns fyrirtækisins CLS, sem er með stærstu framleiðendum blóðvökva í heiminum, stendur til að prófa bóluefnið á 400 sjálfboðaliðum og er von á niðurstöðum áður en árið er liðið.

Hvetja íbúa í strandbæjum að fara

Yfirvöld í Louisiana hvetja nú alla íbúa meðfram ströndum fylkisins að yfirgefa heimili sín. Nýjust veðurfréttir benda til þess að fellibylurinn Ríta muni ganga mun innar en búist var við. Suðvesturhluti Louisiana er talinn vera í mestri hættu.

Hafna nýrri tillögu um mál Írans

Rússar hafa hafnað nýrri ályktun Evrópusambandsins í tengslum við kjarnorkumál Írana þrátt fyrir að þar sé ekki kveðið á um að máli Írana verði vísað strax til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir erindreka á vegum Evrópusambandsins.

64% Svía hafa lesið SMS maka

Níu af hverjum tíu Svíum hafa daðrað í gegnum SMS-skilaboð og 64 prósent hafa lesið SMS-skilaboð í síma maka síns. Það var debetkortafyrirtækið Halebop sem gerði könnunina en í henni kom einnig fram að flestir sem lásu SMS-skilaboð í síma maka síns gerðu það á meðan hann var í sturtu eða á klósettinu.

Lýsir yfir neyðarástandi í ríkjum

Georg Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi bæði í Texas og Louisiana vegna komu fellibylsins Rítu. Þung umferð og skortur á mat og bensíni hamlar þeim gífurlega fjölda fólks sem reynir nú að flýja heimili sín við Mexíkóflóa vegna fellibylsins. Talið er að yfir ein milljón manna sé að reyna að yfirgefa svæði þar sem talið er að Ríta muni ganga yfir.

Sakfelldur fyrir mannskæða árás

Dómstóll í Ísrael sakfelldi í dag Hamas-liða fyrir að skipuleggja sprengjuárás á hótel árið 2002 sem kostaði 30 Ísraela lífið. Árásin var sú mannskæðasta í fimm ára uppreisn Palestínumanna sem lauk fyrr á þessu ári. Abbas al-Sayed, sem fór fyrir herskáum hópi Hamas í Tulkarm á Vesturbakkanum, var einnig sakfelldur fyrir að hafa staðið á bak við sprengjuárás í verslunarmiðstöð árið 2001 en þar létu fimm manns lífið.

Dómsmálanefnd staðfestir Roberts

Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í dag tilnefningu George Bush Bandaríkjaforseta um að John Roberts verði næsti forseti Hæstaréttar. Verður tilnefningin send öldungadeildinni til staðfestingar. Reiknað er með að það verði í næstu viku og þar sem repúblikanar eru í meirihluta í deildinni er talið líklegt að tilnefning hans verði einnig staðfest þar.

Búa sig undir það versta

George Bush, forseti Bandaríkjanna, segir að stjórnvöld búi sig undir það versta vegna fellibylsins Rítu. Ríkisstjórar Texas og Louisiana hafa fyrirskipað tafarlausan brottflutning allra íbúa í strandhéruðum ríkjanna vegna fellibylsins. Þegar hefur meira en ein og hálf milljón manna flúið heimili sín.

Aron Pálmi enn í Beaumont

Nýjustu fréttir af Aroni Pálma eru þær að hann enn staddur í Beumont. Rútuferðinni til Austin hefur verið frestað og er hann nú í umsjón Rauða krossins í borginni og er verið að skipuleggja brottflutning fjölda manns. Ekki er vitað hvert farið verður með fólkið.

Fylgdust með eigin örlögum

Farþegar um borð í þotu JetBlue flugfélagsins fylgdust skelfingu lostnir með eigin örlögum í beinni sjónvarpsútsendingu í gærkvöldi þegar vélin þurfti að nauðlenda eftir að lendingarbúnaður bilaði. Betur fór þó en á horfðist.

Hvetja til barneigna í Frakklandi

Fjölskyldum í Frakklandi er heitið góðum fjárstuðningi frá stjórnvöldum ef þær ákveða að eignast fleiri börn. Villepin, forsætisráðherra Frakklands, kynnti í dag nýjar tillögur stjórnarinnar sem taka gildi á næsta ári og miða að því að hvetja þá foreldra, sem þegar eiga tvö börn, til að eignast fleiri til að hækka fæðingartíðnina í landinu.

Óttast að Houston verði illa úti

Ríta er nú þegar orðinn þriðji öflugasti fellibylur sögunnar. Hann er nú á miðjum Mexíkóflóa og stefnir hraðbyri í átt að ströndum Texas. Búist er við að miðja fellibylsins skelli á borginni Galveston á laugardagsmorgun og þar sem Ríta hefur færst örlítið í norður er óttast að Houston, sem er fjórða stærsta borg Bandaríkjanna, geti orðið illa úti.

Milljónir manna flýja Ritu

Hundruð þúsunda íbúa stórborgarinnar Houston og nágrennis streymdu í gær með sitt hafurtask í áttina inn í land, á flótta undan fellibylnum Ritu sem spáð var að skylli á strönd Texas í dag eða í fyrramálið. Alger umferðarteppa myndaðist á þjóðvegunum inn í land. Um 1.800 þúsund íbúar Texas og Louisiana fengu skipun um að yfirgefa heimili sín.

Merkel og Schröder brjóta ísinn

Angela Merkel, formaður Kristilegra demókrata í Þýskalandi, og Gerhard Schröder, fráfarandi kanslari úr Jafnaðarmannaflokknum, áttu í gær viðræður um möguleikann á því að stóru flokkarnir tveir gengju til stjórnarmyndunarviðræðna.

Áfrýjun hafnað í Khodorkovskí-máli

Dómstóll í Moskvu hafnaði síðla í gær áfrýjun á dóminum yfir rússneska viðskiptajöfrinum Mikhaíl Khodorkovskí, en stytti fangelsisrefsinguna úr níu árum í átta. Lögmenn Khodorkovskís brugðust ókvæða við úrskurðinum og sögðu þetta sýna glögglega að mál skjólstæðings þeirra hefði ekki fengið sanngjarna málsmeðferð.

Fellibylurinn Ríta stefnir á Texas

Öllum íbúum Galveston í Texas hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín vegna fellibylsins Rítu sem stefnir óðfluga þangað eftir að hafa farið fram hjá Florida Keys eyjaklasanum í gær. Ríta er nú orðin annars stigs fellibylur og styrkist óðum. Jafnvel er óttast að hún nái fjórða stigi á næstu sólarhringum þegar hún gæti farið yfir Texas eða Louisiana.

Segja faraldur í Indónesíu

Yfirvöld á Indónesíu segja að upp sé kominn fuglaflensufaraldur í landinu. Í nótt lést fimm ára stúlka í Djakarta sem jafnvel er talin hafa smitast af fuglaflensu. Sex manns á sama spítala eru taldir vera með flensuna. Þegar hefur verið staðfest að fjórir hafi látist af völdum flensunnar í landinu undanfarna mánuði.

Brottflutningi Ísraela lokið

Síðustu ísraelsku hermennirnir yfirgáfu tvær landnemabyggðir á Vesturbakkanum í gær. Þar með lýkur brottfluttningi Ísraelshers sem hófst á Gasa í ágúst. Eins og á Gasa söfnuðust þúsundir Palestínumanna saman á Vesturbakkanum í gær og fögnuðu ógurlega. Landnemabyggðirnar tvær verða þó áfram undir stjórn Ísraels og þarlendir hermenn halda áfram að vakta svæðið í kring.

Leyfa farsímanotkun í vélum sínum

Tvö evrópsk flugfélög hafa ákveðið að leyfa farsímanotkun um borð í vélum sínum frá og með haustinu 2006. Flugfélögin, sem eru frá Portúgal og Bretlandi, verða þar með þau fyrstu í heiminum sem leyfa farþegum að tala í eigin farsíma í háloftunum. Til að byrja með verður þetta fyrirkomulag prófað í nokkrum flugvélum í þrjá mánuði til að sjá hve mikil notkunin verður og hvort upp komi vandræði.

Segir uppreisnarmenn innan hers

Uppreisnarmenn hafa náð að lauma sér inn í írakskar öryggissveitir. Þetta sagði ráðgjafi Íraksstjórnar í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi. Hann sagðist þó ekki vita hve mikið af uppreisnarmönnum væru innan raða öryggissveitanna. Mikil spenna virðist komin upp milli breskra og írakskra stjórnvalda eftir að breskar hersveitir brutust inn í fangelsi í Basra í fyrradag til að frelsa þaðan tvo breska fanga.

Segjast hafa náð stjórn á Tal Afar

Írakskar og bandarískar hersveitir hafa hætt árásum á vígi uppreisnarmanna í borginni Tal Afar. Talsmaður írakska hersins sagði í gær að tekist hefði að ná stjórn á ástandinu og búið væri að handsama eða hrekja á brott alla uppreisnarmenn í borginni. Alls hafa hátt í 200 manns fallið í bardögum í borginni undanfarna tíu daga, en árásarhrina uppreisnarmanna um allt Írak hefur verið rakin til aðgerðanna í Tal Afar.

Búist við erfiðum viðræðum

Búist er við erfiðum stjórnarmyndunarviðræðum í Þýskalandi þegar Angela Merkel, leiðtogi Kristlegra demókrata, og Gerhard Schröder, leiðtogi Jafnaðarmanna, setjast að samningaborðinu síðar í vikunni til að ræða mögulegt samstarf flokkanna. Bæði fögnuðu sigri í kosningum til sambandsþingsins á sunnudag og gera bæði tilkall til kanslaraembættisins.

Ríta orðin fjórða stigs fellibylur

Fellibylurinn Rita er orðin fjórða stigs fellibylur og er þar með orðin öflugri en Katrín þegar hún skall á suðurströnd Bandaríkjanna. Óttast er að Rita kunni að valda gríðarlegi eyðileggingu í Texas og í Louisiana.

Ræða atvik í Basra í dag

Forsætisráðherra Íraks hittir varnarmálaráðherra Bretlands í Lundúnum í dag til þess að ræða frelsun breskra hermanna á tveim félögum sínum sem höfðu verið handteknir í borginni Basra. Írakar hafa tekið hófsamlega á þessu máli og ekki tekið sterkara til orða en að segja að það sé óheppilegt. Bretar segja hins vegar að hermenn þeirra hafi brugðist rétt við.

Sigraði í friðarfegurðarsamkeppni

Fjórtán ára gömul ísraelsk stúlka, Shira Fadida, sigraði í sérstakri friðarfegurðarsamkeppni sem haldin var í bænum Gilo skammt frá Jerúsalem í gær. Tuttugu stúlkur, bæði frá Ísrael og Palestínu, tóku þátt í samkeppninni, en þetta er annað árið í röð sem slík fegurðarsamkeppni er haldin.

Skortur á verkamönnum í Póllandi

Byggingaframkvæmdir í Póllandi eru að stöðvast vegna þess að pólskir byggingaverkamenn eru annaðhvort að vinna við Kárahnjúka eða einhverjar aðrar framkvæmdir á Vesturlöndum.

Munu einnig ræða við smærri flokka

Búist er við erfiðum stjórnarmyndunarviðræðum í Þýskalandi þegar Angela Merkel og Gerhard Schröder setjast að samningaborðinu síðar í vikunni til að ræða mögulegt samstarf flokka sinna. Báðir stóru flokkarnir huga líka að viðræðum við smærri flokkana

Gefur út 100 mínútna Bilbíu

Prestur á Bretlandi hefur fengið nóg af því hversu lítinn áhuga landar hans hafa á Biblíunni og samið nýja og styttri útgáfu af bókinni helgu. Biblían hefur fengið nafnið 100 mínútna Biblían og er þar vísað til þess tíma sem það tekur að lesa hana. Eins og gefur að skilja er stiklað á stóru í verkinu en þó er allar þekktustu Biblíusögurnar að finna í bókinni.

Mörk Ísraels og Gasa landamæri

Ísraelar lýstu mörkin milli Ísraels og Gasa í morgun alþjóðleg landamæri. Það er í fyrsta sinn sem þeir tilgreina opinberlega landamæri að landsvæðum sem á endanum mynda sjálfstætt Palestínuríki. Ísraelar og útlendingar þurfa hér eftir að framvísa skilríkjum til að komast milli Ísraels og Gasa að sögn ísraelskra ráðamanna.

Miklar breytingar á sjávarhita

Loftslagssérfræðingar frá Vestur-Norðurlöndum hafa sýnt fram á umfangsmiklar breytingar á hitastigi sjávar. Í nýju tölublaði hins virta bandaríska vísindatímarits <em>Science</em> eru birtar niðurstöður úr rannsóknum þeirra. Í greininni sýna vísindamenn frá Færeyjum, Noregi og Íslandi fram á miklar og ófyrirséðar breytingar á hitastigi sjávar í Norður-Atlantshafi og norðurhöfum á undanförnum árum.

Íbúar í Houston þurfa að fara

Borgarstjórinn í Houston í Texas, Bill White, tilkynnti í dag að allir íbúar sem byggju á svæðum sem lægju lágt og hætta væri á að flæddi yfir skyldu yfirgefa borgina á morgun vegna komu fellibylsins Rítu. Almannavarnir á svæðinu segja að allt að ein milljón manna í borginni verði að fara en búist er við Ríta taki land við Galveston, suðaustur af Houston, á föstudag eða laugardag.

Segja Issac framseldan á morgun

Ítalir munu á morgun framselja einn mannanna, sem grunaðir eru misheppnuð sprengjutilræði í Lundúnum 21. júlí, til Bretlands. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir heimildarmönnum innan dómskerfis Ítalíu. Hamdi Issac var handtekinn í Róm viku eftir sprengingarnar og fóru Bretar þegar fram á framsal hans. Málið fór fyrir dóm á Ítalíu sem úrskurðaði fyrr í mánuðinum að Issac, sem einnig gengur undir nafninu Osman Hussein, skyldi framseldur.

Handteknir vegna barnakláms

Lögregla í sex ríkjum Evrópusambandsins handtók hóp manna í áhlaupi á 80 hús í löndunum sex vegna gruns um að fólk þar tengdist dreifingu og vörslu barnakláms á Netinu. Í tilkynningu frá Europol segir að um framhald aðgerða frá því í sumar hafi verið að ræða, en 14. júní var ráðist inn í 140 hús í 13 löndum Evrópu og leiddi það til þess að ríflega 130 manns sættu rannsókn vegna tengsla sinna við barnaklámsefni.

Sjá næstu 50 fréttir