Erlent

Munu einnig ræða við smærri flokka

Búist er við erfiðum stjórnarmyndunarviðræðum í Þýskalandi þegar Angela Merkel og Gerhard Schröder setjast að samningaborðinu síðar í vikunni til að ræða mögulegt samstarf flokka sinna. Báðir stóru flokkarnir huga líka að viðræðum við smærri flokkana. Bæði Gerhard Schröder, leiðtogi Jafnaðarmanna, og Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, fögnuðu góðum árangri í kosningum til þýska sambandsþingsins á sunnudag og gera bæði tilkall til kanslaraembættisins. Schröder, sem verið hefur kanslari undanfarin ár, segist ekki geta sætt sig við fyrirfram sett skilyrði og telur eðlilegt að stjórnarmyndunarviðræðurnar við Kristilega demókrata taki mið af því að hann verði áfram kanslari. Báðir stóru flokkarnir áforma einnig að ræða við smærri flokkana í þeirri viðleitni að tryggja sér örugga samstarfsflokka í nýrri samsteypustjórn. Angela Merkel hefur sagt að kosningaúrslitin á sunnudag þýði að flokki hennar beri að leiða stjórnarmyndunarviðræðurnar og hún skorar á Gerhard Schröder að sætta sig við þá staðreynd að Jafnaðarmannaflokkurinn sé ekki lengur stærsti flokkur landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×