Erlent

Skortur á verkamönnum í Póllandi

Byggingaframkvæmdir í Póllandi eru að stöðvast vegna þess að pólskir byggingaverkamenn eru annaðhvort að vinna við Kárahnjúka, eða einhverjar aðrar framkvæmdir á Vesturlöndum. Verktakar í Póllandi eiga í miklum vandræðum vegna skorts á verkamönnum og eru framkvæmdir farnar að stöðvast af þeim sökum. Verktakarnir áætla að um tuttugu þúsund manns vanti í byggingaiðnaðinn til þess að eðlilega sé mannað. Darius Gralewski, byggingaverktaki segir ástandið dapurlegt. Áttatíu af hans mönnum séu farnir til vinnu á Vesturlöndum og honum gangi ekkert að fá menn í staðinn þótt hann borgi ágæt laun. „Mig vantar 100 til 110 manns í vinnu,“ segir Darius. Pólsku verkamennirnir kjósa frekar að sækja vinnu til landa eins og Íslands, Noregs, Hollands og Bretlands. Samtök byggingaverktaka í Póllandi reyna nú að fá stjórnvöld til þess að opna landið fyrir verkamönnum úr austri, frá löndum eins og Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi. Stjórnarherrarnir eru hins vegar hikandi við að auka frelsi á vinnumarkaðinum og opna dyrnar fyrir þegna ríkja sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×