Erlent

Nöfn á fellibyljum að verða búin

Í fyrsta skipti í 60 ára sögu nafngifta á fellibyljum, lítur jafnvel út fyrir að menn verði uppiskroppa með nöfn. Fellibyljamiðstöð Veðurstofu Bandaríkjanna hefur nú í 60 ár gefið fellibyljum sem myndast á Atlantshafi nöfn í stafrófsröð. Fyrir hvert ár er þannig ákveðið með fimm ára fyrirvara hvaða fellibyljanöfn verði notuð. Ýmis nöfn haf þó dottið af lista af ýmsum ástæðum. Ef fellibylur veldur miklum skaða er nafn hans ekki notað aftur til þess að valda ekki tilfinningausla hjá þeim sem verða illa úti í bylnum. Þannig hafa nöfnin Ívan og Andrés til dæmis dottið út af listanum og fastlega má búast við því að nafnið Katrín verði ekki notað framar. Nöfn hafa líka dottið út af listanum af pólitískum ástæðum. Einu sinni var til dæmis nafnið Adolf notað á fellibyl og annar hét Ísrael, en þau nöfn voru tekin út af listanum og hafa ekki verið notuð um áratuga skeið. En hvað gerist ef stafrófið þrýtur og fleiri en 21 fellibylur blæs á einu ári? Þessi vandi hefur ekki komið upp í 60 ára sögu nafngifta á fellibyljum en vísindamenn fellibyljamiðstöðvarinnar hafa baktryggt sig. Ef nafnalistann þrýtur grípa menn til gríska stafrófsins. Nú eru fjögur nöfn eftir ónotuð, Stan, Tammy, Vince og Wilma. Ef fer eins og margir spá, að þessi nöfn duga ekki til, munu næstu fellibyljir heita Alfa, Beta, Gamma og svo framvegis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×