Erlent

Milljónir manna flýja Ritu

Hundruð þúsunda íbúa stórborgarinnar Houston og nágrennis streymdu í gær með sitt hafurtask í áttina inn í land, á flótta undan fellibylnum Ritu sem spáð var að skylli á strönd Texas í dag eða í fyrramálið. Alger umferðarteppa myndaðist á þjóðvegunum inn í land, þótt lögreglan léti umferðina ganga í sömu átt á öllum akreinum. Á að giska 1.800 þúsund íbúar strandhéraða Texas og Louisiana fengu skipun um að yfirgefa heimili sín og koma sér í öruggt skjól innar í landi. Yfirvöldum er mjög í mun að ekki komi til þess aftur að þúsundir manna verði innlyksa eins og gerðist í hamförunum sem fellibylurinn Katrín olli. Aðeins dró úr vindstyrknum í fellibylnum þar sem hann hamaðist yfir Mexíkóflóa í gær, en þó ekki meira en svo að hann er nú jafnmikill og í Katrínu er hún gekk á land fyrir um mánuði. Jafnvel þótt enn dragi eitthvað frekar úr styrk Ritu getur eyðileggingin af völdum fellibylsins orðið mikil. Hann stefnir nú meðal annars á þéttustu þyrpingu olíuborpalla og olíuvinnslustöðva í Bandaríkjunum, úti fyrir og á strönd Texas. New Orleans-búar eru milli vonar og ótta um að nýviðgerðir flóðvarnargarðarnir standist áhlaup Ritu. Að sögn Ólafs Árna Ásgeirssonar, ræðismanns Íslands í Houston, hefur eldsneytisskortur sett strik í reikning þeirra sem vildu yfirgefa borgina. Birgðir bensínstöðva hafa klárast. Ólafur segir að þeir sem búi á mestu hættusvæðunum og hlíti ekki skipun um að koma sér í öruggt skjól verði ekki hraktir burt með lögregluvaldi, en þeir sem ákveði að vera eftir geri það á eigin ábyrgð, og fyrirgeri tilkalli til aðstoðar opinberra aðila. "Því fólki verður ekki séð fyrir mat, vatni, flutningum, húsaskjóli eða læknishjálp," sagði Ólafur, sem sjálfur býr um 150 km frá ströndinni og ætlar ekki að yfirgefa heimili sitt. "Núna er skafheiður himinn og 38 stiga hiti," sagði hann í gærmorgun og taldi ljóst að þar færi lognið á undan storminum sem þá var enn um 500 kílómetra úti á Mexíkóflóa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×