Erlent

Óttast að Houston verði illa úti

Ríta er nú þegar orðinn þriðji öflugasti fellibylur sögunnar. Hann er nú á miðjum Mexíkóflóa og stefnir hraðbyri í átt að ströndum Texas. Búist er við að miðja fellibylsins skelli á borginni Galveston á laugardagsmorgun og þar sem Ríta hefur færst örlítið í norður er óttast að Houston, sem er fjórða stærsta borg Bandaríkjanna, geti orðið illa úti. Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður er í Bandaríkjunum. Hann segir fregnir af Rítu tröllríða öllum fjölmiðlum vestra og einnig tröllríða samræðum fólks en það bíði þess með öndina í hálsinum að sjá hvað gerist þegar Ríta taki land. Ingólfur segir fólk ekki vilja trúa því að annar öflugur fellibylur geti verið að fara að skella á landinu, en það hafi aldrei gerst áður að fellibylur af stærð fjögur og annar stærð fimm skelli á meginlandi Bandaríkjanna með svo stuttu millibili. Það velti því fyrir sér hvers vegna þetta gerist og því hafi skapast umræða um að þetta séu hugsanlega gróðurhúsaáhrif. Ingólfur segir að almennt telji fólk rétt og skynsamlegt að bregðast hratt og mjög ákveðið við fregnunum og flytja frekar fleiri en færri af hættusvæðum og bregðast frekar fyrr við en síðar. Mönnum sé ofarlega í huga það sem gerðist þegar Katrín reið yfir, en staðfest hafi verið að yfir þúsund manns hafi látist þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×