Erlent

Búa sig undir það versta

George Bush, forseti Bandaríkjanna, segir að stjórnvöld búi sig undir það versta vegna fellibylsins Rítu. Ríkisstjórar Texas og Louisiana hafa fyrirskipað tafarlausan brottflutning allra íbúa í strandhéruðum ríkjanna vegna fellibylsins. Þegar hefur meira en ein og hálf milljón manna flúið heimili sín. Fellibylurinn Ríta er orðinn fimmta stigs fellibylur og þar með öflugri Katrín þegar hún gekk yfir suðurströnd Bandaríkjanna í síðasta mánuði og olli gríðarlegri eyðileggingu. Ríta er orðinn þriðji öflugasti fellibylur sögunnar, en vindhraði hans er nú 265 kílómetrar á klukkustund. Fellibylurinn stefnir óðfluga að ströndum Texas og er búist við að miðja bylsins skelli á borginni Galveston á laugardagsmorgun auk þess sem áhrifa bylsins mun gæta meðfram ströndum Louisiana. Óttast er um afleiðingarnar þar sem Galveston er aðeins tvo og hálfan metra yfir sjávarmáli, en dragi ekki úr krafti Rítu er útlit fyrir að borgin fari á kaf í vatn. Flestir íbúar í þessari tæplega sextíu þúsund manna borg hafa þegar flúið heimili sín en nokkur fjöldi neitar að yfirgefa hættusvæðið. Kenneth Mack, lögreglustjóri í borginni, segir að ekki sé hægt að neyða fólk til að fara þótt skipun um brottflutning sé í gildi. Lögregla hafi ekki vald til að neyða fólk til að fara en hann ráðleggi fólki að koma sér burt þar sem fellibylurinn sé gríðarlegur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Galveston verður fyrir barðinu á öflugum fellibyl því árið 1900 þurrkaðist borgin út þegar fellibylur reið yfir hana með þeim afleiðingum að um tíu þúsund manns létu lífið. Ríkisstjórar Texas og Louisiana hafa fyrirskipað tafarlausan brottflutning íbúa í strandhéruðum ríkjanna og hefur gríðarlegt umferðaröngþveiti myndast í grennd við hættusvæðin, meðal annars við Houston. Þar sem Rita hefur aðeins færst norður er óttast að Houston, fjórða stærsta borg Bandaríkjanna, geti orðið illa úti, en þar eru meðal annars stærstu olíuhreinsistöðvar landsins staðsettar. George Bush, forseti, segir ástandið mjög alvarlegt. Hann hvetur borgara til þess að hlusta á það sem yfirvöld hafi að segja og fara eftir því sem fyrir þá sé lagt. Menn biðji þess að fellibylurinn Ríta verði ekki hamfarastormur en stjórnvöld verði að vera búin undir það versta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×