Erlent

Hussein kominn til Bretlands

Osman Hussein, sem sakaður eru um að vera einn fjórmenninganna sem stóðu á bak við misheppnaðar sprengjuárásir í Lundúnum 21. júlí, kom í dag til Bretlands. Hussein, sem einnig gengur undir nafninu Hamdi Issac, var handtekinn á Ítalíu skömmu eftir tilræðin og fyrr í mánuðinum féllst ítalskur dómstóll á að hann yrði framseldur til Bretlands vegna málanna. Hussein á yfir höfði sér ákærur um að leggja á ráðin um morð, tilraun til morðs og fyrir vörslu sprengiefna. Félagar hans þrír hafa þegar verið ákærðir fyrir aðild að tilræðunum sem gerð voru í þremur neðanjarðarlestum og strætó í Lundúnum. Engan sakaði í árásunum misheppnuðu en mikil skelfing greip um sig meðal borgarbúa enda höfðu 52 látist í svipuðum tilræðum í borginni tveimur vikum fyrr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×