Fleiri fréttir

Vilja ódýrari frístundastarf

Samfylkingin lagði til á fundi borgarstjórnar í dag að gengið verði til viðræðna um að ná niður kostnaði fjölskyldna og barna við íþróttir, listir og ýmis konar frístundir. Að mati borgarfulltrúa flokksins er um að ræða stóra kostnaðarliði í heimilisbókhaldi barnamargra fjölskyldna. Lagt er til að allt að hundrað milljónir verði nýttar til þessa af liðinum ófyrirséð.

Hundrað fjölskyldur fá gefins hamborgarhrygg

Hjónin Benedikt Eyjólfsson og Margrét Beta Gunnarsdóttir, eigendur fyrirtækisins Bílabúð Benna, afhentu í morgun 100 hamborgarhryggi til sameiginlegrar jólaaðstoðar Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Hjálparstarfs kirkjunnar og Reykjavíkurdeildar RKÍ. Hryggjunum verður úthlutað til fjölskyldna á næstu dögum í aðstöðu jólaaðstoðarinnar á Norðlingabraut 12.

Sýna almenningi fingurinn

„Það er með öllu óþolandi að útrásarvíkingar og tengd fyrirtæki fái afskriftir skulda sinna þegar bílalántakendum er boðið að súpa höfuðstólshækkanir fjármálafyrirtækjanna. Krafa er um ríflegar leiðréttingar eða stuðst verði við undirritaða greiðsluyfirlit lánanna, að öðrum kosti verði bílamótmælum haldið áfram um ókomna tíð,“ segir Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, hjá samtökunum Nýtt Ísland, í tilkynningu. Hún segir stjórnvöld sýna almenningi í landinu fingurinn.

Varað við hálku

Umferðarstofa vill vara ökumenn á höfuðborgarsvæðinu við hálku sem að er víða á götum. Ökumenn í Fossvogi, Breiðholti og í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins hafa orðið varir við hættulegar aðstæður vegna hálku.

Skattleggjum okkur ekki útúr kreppunni

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir að íslenskt samfélag muni ekki skattleggja sig út úr kreppunni. Síðari umræða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 fer fram í borgarstjórn í dag.

Björn Herbert kjörinn í bankaráð Seðlabankans

Björn Herbert Guðbjörnsson var í dag kjörinn í bankaráð Seðlabanka Íslands í stað Ágústs Einarssonar sem hætt hefur í ráðinu. Björn Herbert var áður varamaður og í hans stað var Gunnar Svavarsson kjörinn varamaður.

Flautað á Íslandsbanka

Á fjórða tug bifreiðaeigenda tók þátt í mótmælum sem hófust fyrir utan höfuðstöðvar Íslandsbanka við Kirkjusand í hádeginu. Safnast verður saman fyrir utan fjögur önnur fyrirtæki sem lána til bifreiðakaupa og flautað stanslaust í þrjár mínútur.

Lögreglan leitar að vitnum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á Birkimel við Hringbraut í Reykjavík fimmtudagskvöldið 10. desember síðastliðinn. Ekið var á gangandi vegfaranda á fyrrnefndum stað þetta áðurnefnda kvöld klukkan 22.37. Lögreglan biður þá sem urðu vitni að slysinu vinsamlegast um að hafa samband í síma 444-1000.

Samfylking vill banna innihaldslaus yfirboð

Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram tillögu þess efnis að bann verði lagt við „innihaldslausum yfirboðum“ í aðdraganda kosninganna í vor.

Átak gegn ölvunarakstri: Rúmlega 500 stöðvaðir

Rúmlega fimm hundruð ökumenn voru stöðvaðir á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu um helgina í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan heldur nú úti í umdæminu. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ökumenn hafi almennt tekið þessum afskiptum mjög vel en öflug sveit lögreglumanna var á vettvangi og því gekk eftirlitið að mestu snuðrulaust fyrir sig.

Gamlir farsímar nýtast í hjálparstarfi

Græn framtíð og Síminn hvetja fólk til að styðja Hjálparstarf kirkjunnar fyrir jólin með því að koma með gamla og notaða GSM síma í verslanir Símans. GSM símarnir verða sendir í endurnýtingu og mun andvirði þeirra renna til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar, að fram kemur í tilkynningu.

Færri sjúkraflutningar skýra breytingarnar

Færri sjúkraflutningar fyrstu átta mánuði þessa árs borið saman við sömu mánuði undanfarin ár skýrir af hverju stöðugildum sjúkraflutningamanna á Suðurlandi er fækkað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna sjúkraflutninga í Árnessýslu en sjúkraflutningamenn hafa gagnrýnt fyrirhugaðan niðurskurð.

Eymdarvísitala Moody's: Ísland í sjöunda sæti

Lánsmatsfyrirtækið hefur tekið upp á því að birta vísitölu sem þeir kalla „Misery Index“ sem þýða mætti sem Eymdarvísitölu. Þar er fjárlagahalli ríkis lagður saman við atvinnuleysi í viðkomandi landi og ríkjum raðað eftir því. Ísland lendir samkvæmt þessu viðmiði í sjöunda sæti með eymdarvísitölu upp á rúmlega tuttugu prósent.

Ágúst hættir í bankaráði Seðlabankans

Alþingi kýs nýjan aðalmann í bankaráð Seðlabankans í stað Ágústs Einarssonar, rektors Háskólans á Bifröst, á þingfundi í dag. Fimm bankaráðsmenn auk Ágústs hafa sagt af sér frá bankahruninu.

Kviknaði í ofni á Flókagötu

Eldur kom upp í íbúð við Flókagötu á tíunda tímanum í dag. Slökkviliðið mætti á vettvang og í ljós kom að kviknað hafði í bakaraofni. Eldurinn var slökktur og er nú unnið að reykræstingu. Íbúum varð ekki meint af.

Síðari umræða um fjárhagáætlun borgarinnar

Síðari umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 fer fram á fundi borgarstjórnar í dag. Áætlunin var lögð fram í byrjun mánaðarins en til stendur að spara yfir þrjá milljarða króna. Í áætluninni er gert ráð áframhaldandi samdrætti í tekjum borgarinnar. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks segir að honum verði mætt með hagræðingu í stjórnsýslu og rekstri, en skattar og gjöld fyrir grunnþjónustu verði ekki hækkuð. Fundur borgarstjórnar hefst klukkan tíu.

Þrír stútar teknir í nótt

Þrír menn voru teknir úr umferð á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ölvunaraksturs. Þetta er óvenju mikið í upphafi viku og með tilliti til þess að lögregla var ekki með sérstakt átak við eftirlit í nótt. Enginn þeirra reyndi að komast undan þegar lögregla gaf þeim stöðvunarmerki.

Datt af mótorhjóli

Ökumaður bifhjóls meiddist, en þó ekki alvarlega, þegar hann féll á hjóli sínu í Hafnarfirði í gærkvöldi. Hann var í hópi vélhjólamanna þegar hann féllog er óhappið ekki rakið til hraðaksturs. Margir vélhjólamenn hafa dustað rykið af vélfákum sínum síðustu dagana, enda ákjósanlegt færi í blíðviðrinu.

Miklar hækkanir á fóðri

Verð á fóðri til fiskeldis er að hækka um allt að tuttugu prósent og aðrar fóðurblöndur, með fiskimjöli, eru líka að hækka umtalsvert. Hækkunin er rakin til mikillar hækkunar á fiskimjöli hér innanlands, sem hækkar í takt við fiskimjöl á heimsmarkaði. Það hefur hækkað um tugi prósenta það sem af er árinu, sem meðal annars má rekja til lítilla loðnuveiða hér við land og aflabrests á ansjóvetuveiðum í Suður Ameríku. Vaxandi fiskeldi í heiminum hefur líka aukið spurn eftir fiskimjöli.-

Fiskvinnslufólk fær ríflega jólabónusa

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum ætlar að greiða hverjum starfsmanni 150 þúsund krónur til viðbótar desemberuppbótinni, Ísfélagið í Vestmannaeyjum ætlar að tvöfalda jólabónusinn til sinna starfsmanna og Samherji ætlar að greiða sínu landverkafólki hundrað þúsund krónur aukalega nú í desember. Þetta kemur fram á heimasíðum fyrirætkjanna og öll skýra fyrirtækin þetta með góðri rekstrarafkomu , meðal annars vegna lágs gengis krónunnar.

Lögreglan náði innbrotsþjófum á hlaupum

Tveir sautján ára piltar voru handteknir í nótt eftir að þeir höfðu brotist inn í bílasölu við Nethyl í Reykjavík. Athugull vegfarandi sá til þeirra þegar þeir voru þar innandyra. Þegar lögregla kom á vettvang tóku þeir til fótanna, en lögreglumenn hlupu þá uppi og gista piltarnir nú fangageymslur.

Vilhjálmur ekki með í prófkjöri

„Þessi ár hafa verið mér mikils virði og í raun ómetanleg,“ segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, í yfirlýsingu þar sem hann kynnir þá ákvörðun að bjóða sig ekki fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor.

Vill rannsókn á undirskriftum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður vill að ríkisstjórnin láti rannsaka ógildar undirskriftir á lista Indefence sem rekja megi til opinberra stofnana. „Það er óeðlilegt í jafn mikilvægu máli að svona undirskriftir séu raktar til RÚV eða Stjórnarráðsins, hvort sem það var gert í einkapósti eða ekki.“

Ísinn á Grænlandi bráðnar enn hraðar

Vísindamenn á vegum heimskautaráðsins hafa sent frá sér skýrslu sem sýnir að heimskautaísinn á Grænlandi bráðnar mun hraðar en áður var talið. Tilvikum þar sem ísjakar brotna frá massanum hefur fjölgað um 30 prósent á áratug, úr 330 milljörðum tonna í 430 milljarða tonna.

Indefence ber ásökun til baka

Forsvarsmenn Indefence-hópsins hafa borið til baka ásakanir um að starfsmenn Fréttablaðsins hafi verið meðal þeirra sem staðið hafi að árás á undirskriftasöfnun hópsins á föstudag.

Kynnti íslensk verkefni í Höfn

Jakob S. Friðriksson, framkvæmdastjóri framleiðslu og sölu hjá Orkuveitu Reykjavíkur, kynnti verkefni fyrirtækisins um endurnýjanlega orkugjafa á ráðstefnunni í dag.

Tímaáætlun liggur ekki fyrir

Ákveðnum áföngum þarf að ná áður en hægt verður að stíga næstu skref í afnámi gjaldeyrishafta, segir Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi. Sjóðurinn kynnti í gær niðurstöður viðræðna við stjórnvöld og fleiri aðila síðustu tvær vikur vegna annarrar endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda og sjóðsins.

Kertaljósavaka haldin í dag

Kertaljósavaka til að krefjast þess að þjóðarleiðtogar heims nái bindandi samkomulagi á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn verður haldin á Lækjartorgi í dag klukkan 17.30.

Segir þjónustuíbúðir aldraðra allt of dýrar

Afar óeðlilegt er að leiguverð í nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar úthlutar sé svo hátt að þeir tekjulægstu í hópi aldraðra hafi engan möguleika á að greiða húsaleiguna, segir Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Kennir ýmissa grasa í kröfuhafaskrá

Fjármálafyrirtækið Burlington Loan Management var stofnað á þessu ári í tengslum við kaup á skuldabréfum Glitnis á eftirmarkaði. Það tengist bandaríska vogunarsjóðnum Davidson Kempner Capital Management, sem sérhæfir sig í fjárfestingum á skráðum hluta- og skuldabréfamarkaði. Það veðjaði á fall banka og fjármálafyrirtækja í bankahrinunni í fyrra, þar á meðal breska bankans Lloyds í byrjun september, samkvæmt gögnum breska fjármálaeftirlitsins.

Skipað að fella samkomutjald

Borgarráð hefur samþykkt að rekstraraðila Hressingarskálans í Austurstræti verði gert að taka niður samkomutjald í garði staðarins.

Rússar boða minni útblástur

Rússar hyggjast standa við yfirlýsingar Dimitri Medvedev, forseta landsins, um að útblástur gróðurhúsalofttegunda verði fjórðungi minni árið 2020. Þeir kynntu ítarlegar leiðir sem stjórnin ætlar að fara eftir til að ná þeim markmiðum.

Gerður að heiðursdoktor

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var gerður að heiðursdoktor Ríkisháskólans í Ohio, fjölmennasta háskóla Bandaríkjanna, á sunnudag.

Takast á um frávísun eftir gagnaöflun

Fyrsta dómsmálið þar sem reynir á gildi neyðarlaganna sem sett voru við fall bankakerfisins í fyrrahaust var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Lögð voru fram gögn og fundinn dagur um miðjan febrúar næstkomandi fyrir málflutning vegna kröfu ríkisins um að málinu verði vísað frá dómi.

Ráðherra bíður dóms í málinu

„Við höfum tekið þá ákvörðun að bíða dóms í málinu," segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra um iðnaðarmálagjald, skatt sem lagður er á veltu iðnfyrirtækja og miðlað um ríkissjóð til Samtaka iðnaðarins.

Gengu allir á dyr

Fulltrúar Afríkuríkja sýndu í verki að þeim er full alvara með að standa fast á sínu þegar þeir gengu á dyr í stóra salnum í Bella Center. Þá hættu þeir þátttöku í öllum nefndum og ráðum. Aðgerðirnar studdu 135 lönd, þar á meðal öll þróunarríkin, Kína og Indland.

Vökvabann í flugi framlengt

Evrópusambandið áformar að framlengja bann við að taka vökva í handfarangri í flug fram í apríl 2013. Verði bannið ekki framlengt mun það renna út í apríl næstkomandi.

Skólakrakkar fá tölvur úr banka

Grunnskólinn á Hólmavík mun spara 1,4 milljónir króna á að kaupa lítið notaðar tölvur í stað þess að kaupa nýjar eins og til stóð. Um er að ræða öflugar tölvur með 19 tommu skjá og Windows 7 stýrikerfi á aðeins 35 þúsund krónur stykkið að því er segir í skýrslu Ásdísar Leifsdóttur sveitarstjóra.

Töldu dótturinni líkt við hross

Mæðgur hafa verið dæmdar til að greiða samtals 240 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir að hafa ráðist á konu í verbúð í Þorlákshöfn. Þá voru þær dæmdar til að greiða fórnarlambinu 130 þúsund krónur í miskabætur.

Orkuver ræst í Elliðaárdalnum

Nýtt frumkvöðlasetur var opnað í aflagðri rafveitubyggingu í Elliðaárdal í gær. Setrið er nefnt eftir húsinu sjálfu sem heitið hefur Toppstöðin. Að því er kemur fram í tilkynningu verður í setrinu orkuver hugvits og verkþekkingar rekið af félagasamtökunum Toppstöðinni og hafi að markmiði að styðja við nýsköpun á sviði framleiðslu og hönnunar og auka tengsl milli hönnunargreina og iðngreina. „Toppstöðin mun á komandi mánuðum byggja upp öflugt starf með fjölbeyttri dagskrá, fyrirlestrum, vinnustofum, námskeiðum og þróunarverkefnum,“ segir í kynningu. - gar

Varað við fyrirframsköttum

Fyrirframskattheimta er varasöm að mati Marks Flanagans, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um málefni Íslands. Á fundi með Flanagan í gær kom fram að starfsfólk sjóðsins hafi varað stjórnvöld sérstaklega við slíkri skattheimtu í viðræðunum sem staðið hafa frá mánaðamótum og lauk í gær um aðra endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og AGS. Í umræðunni hefur verið bæði að heimta skatta fyrirfram af stóriðju og af lífeyrissjóðum.

Þarf að endurskoða launamál hjá ríkinu

„Við þykjumst sjá dæmi þess að forstöðumönnum stofnana hafi verið hent út í djúpu laugina. Ég held að þeir hafi ekki fengið nægilega þjálfun til að umgangast þennan málaflokk með sömu röggsemi, eða það má kalla það hörku, og viðgekkst áður,“ segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.

Flutti inn fyrsta bardagabúrið

íþróttir Fyrsta bardagabúrið sem ætlað er til æfinga í blönduðum bardagaíþróttum hefur verið flutt til landsins af félaginu Mjölni.

Sjá næstu 50 fréttir