Innlent

Skipað að fella samkomutjald

Í garði hressingarskálans Tjaldið sem sett var upp fyrir sex vikum er hættulegt segir slökkviliðið.Fréttablaðið/Valli
Í garði hressingarskálans Tjaldið sem sett var upp fyrir sex vikum er hættulegt segir slökkviliðið.Fréttablaðið/Valli

Borgarráð hefur samþykkt að rekstraraðila Hressingarskálans í Austurstræti verði gert að taka niður samkomutjald í garði staðarins.

„Forvarnardeild Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur metið svo að umtalsverð hætta sé fyrir hendi á öryggi gesta veitingastaðarins,“ segir í greinargerð Magnúsar Sædals byggingarfulltrúa.

„Þeir segja hættu á að það kvikni í tjaldinu en það er nú samt úr sérstöku óbrennanlegu efni sem uppfyllir kröfur Evrópusambandsins,“ segir Valdimar Hilmarsson, annar tveggja eigenda Hressingarskálans.

Að sögn Valdimars var tjaldið sett upp í góðri trú í garði Hressingarskálans fyrir um sex vikum til að styrkja rekstur staðarins yfir veturinn. „Þeir komu og skipuðu okkur að taka tjaldið niður en við báðum þá um að fá skriflegan rökstuðning fyrir því. Nú er lögfræðingurinn okkar búinn að kæra þeirra ákvörðun.“

Valdimar segir það hart að borgin sæki að Hressingarskálanum vegna tjaldsins eftir að staðurinn hafi í tvö og hálft ár goldið fyrir slugs af hálfu borgarinnar eftir stóra brunann á næstu lóð. Til dæmis hafi verið lokað fyrir göngustíg frá Austurstræti. „Borgin gerir það sem henni sýnist án þess að spyrja nokkurn en eltir svo litla aðila með kröfum um leyfi hingað og þangað.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×