Innlent

Gamlir farsímar nýtast í hjálparstarfi

Græn framtíð og Síminn hvetja fólk til að styðja Hjálparstarf kirkjunnar fyrir jólin með því að koma með gamla og notaða GSM síma í verslanir Símans. GSM símarnir verða sendir í endurnýtingu og mun andvirði þeirra renna til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar, að fram kemur í tilkynningu.

„Þörf fyrir aðstoð hefur vaxið gríðarlega á þessu ári en rúmlega helmingi fleiri leituðu til Hjálparstarfs kirkjunnar í október 2009 miðað við sama mánuð í fyrra, eða 319 í október í fyrra en 886 í sama mánuði í ár. Að baki hverjum umsækjanda voru 2,7 einstaklingar að meðaltali sem þýðir að 2.300 einstaklingar nutu aðstoðar í októbermánuði í ár," segir Bjarni Gíslason, fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar.

Fram kemur í tilkynningunni að með því að koma með gamla og notaða GSM síma í verslanir Símans geta viðskiptavinir stutt gott málefni og um leið lagt sitt á vogarskálarnar í umhverfisvernd. Afrakstur söfnunarinnar verður afhentur Hjálparstarfi kirkjunnar í byrjun janúar.

Bjarni segir að orsakir þess að fólk leiti til Hjálparstarfs kirkjunnar séu marþættar. „Þær eru í flestum tilvikum samspil nokkurra þátta, svo sem vegna lágra launa eða bóta, hárrar húsaleigu eða veikinda og atvinnuleysis. Búast má við erfiðum vetri og áframhaldandi fjölgun umsókna og mun Hjálparstarf kirkjunnar nota afrakstur söfnunarinnar til að mæta aukinni þörf á næsta ári."

Tekið er á móti notuðum farsímum í öllum verslunum Símans; í Smáralind, Kringlunni, Ármúla og á Akureyri. Græn framtíð annast flutning á GSM símunum til vottaðra endurnýtingarfyrirtækja í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×