Innlent

Færri sjúkraflutningar skýra breytingarnar

Færri sjúkraflutningar fyrstu átta mánuði þessa árs borið saman við sömu mánuði undanfarin ár skýrir af hverju stöðugildum sjúkraflutningamanna á Suðurlandi er fækkað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna sjúkraflutninga í Árnessýslu en sjúkraflutningamenn hafa gagnrýnt fyrirhugaðan niðurskurð.

„Í gegnum sýsluna liggur einn hættulegasti vegakafli landsins. Við erum með 13 þúsund sumarhús í eigu einstaklinga og félagssamtaka og maður spyr sig hvort verið sé að setja verðmiða á mannslíf með þessari skerðingu," sagði Jóhann K. Jóhannsson, formaður Félags sjúkraflutningamanna á Suðurlandi, í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku.

Í tilkynningu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir að við þær kröfur, sem nú séu gerðar varðandi hagræðingu og lækkun útgjalda í heilbrigðisþjónustunni verði að horfa til þjónustunnar í heild og meta hvaða þjónustu sé brýnast að verja. „Heilbrigðisstofnunin þarf að gera margvíslegar ráðstafanir til að lækka reksturskostnað á næsta ári. Framangreind breyting á vaktafyrirkomulagi sjúkraflutninga er einungis ein af mörgum, sem þarf að gera á rekstri stofnunarinnar."


Tengdar fréttir

Ráðherrabílarnir kosta álíka mikið og sjúkraflutningar í Árnessýslu

Bílafloti ríkisstjórnarinnar kostar ríkissjóð álíka mikið og allir sjúkraflutningar í Árnessýslu. Skera þarf niður í sjúkraflutningum í því umdæmi á næsta ári og fækka á sjúkraflutningamönnum um fjórðung. Með því fást 17 milljónir sem duga til að reka tvo ráðherrabíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×