Innlent

Indefence ber ásökun til baka

Undirskriftir Um 100 rangar undirskriftir voru skráðar á vef Indefence á föstudag.
Undirskriftir Um 100 rangar undirskriftir voru skráðar á vef Indefence á föstudag.

Forsvarsmenn Indefence-hópsins hafa borið til baka ásakanir um að starfsmenn Fréttablaðsins hafi verið meðal þeirra sem staðið hafi að árás á undirskriftasöfnun hópsins á föstudag.

„Talsmaður Indefence hljóp augsýnilega illa á sig í þessum yfirlýsingum um þátt Fréttablaðsins, eins og aðrir sem runnu í far hans við samsæriskenningasmíðarnar. Það hefði nú verið kurteislegra ef Indefence hefði beðist afsökunar á þessu gönuhlaupi sínu,“ segir Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins.

Í yfirlýsingu frá hópnum kemur fram að um 100 rangar undirskriftir hafi verið skráðar á nokkrum klukkustundum á föstudag. Við því brást einn forsvarsmaður söfnunarinnar með því að segja í samtali við vefmiðilinn mbl.is að þar virtist vera um tilraun að ræða til að gera söfnunina ótrúverðuga, og að furðu hafi vakið að rangar skráningar hafi komið frá tölvum í Stjórnarráðinu, Hagstofu Íslands, Ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu.

Með yfirlýsingu Indefence er staðfest að aðeins hafi verið um eina skráningu að ræða frá Fréttablaðinu, og að skýring blaðamanns sé tekin „fullkomlega gild“.

Blaðamaðurinn var að vinna frétt um undirskriftasöfnunina og setti inn nafnið „XXXXXX“ með augljóslega rangri kennitölu til að athuga hvort vefsíðan tæki við skráningum með kennitölu sem ekki endaði á níu eða núlli, eins og allar íslenskar kennitölur einstaklinga. Frétt um málið var birt í Fréttablaðinu á laugardag.

„XXXXXX“ var notað til að ekki færi á milli mála að ekki væri um raunverulega skráningu að ræða.

Um 34 þúsund undirskriftir voru komnar á lista Indefence í gærkvöldi. Að sögn forsvarsmanna hópsins verður listinn samkeyrður við þjóðskrá að söfnun lokinni. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×