Fleiri fréttir

Öryrkjabandalagið krefst svara um velferðakerfi framtíðarinnar

Öryrkjabandalagið ætlar, ásamt fleirum, að krefja stjórnmálaflokkana um skýr svör fyrir sveitarstjórnar- og Alþingiskosningar um hvernig velferðarkerfið verði byggt upp á Íslandi. Formaður bandalagsins, Sigursteinn Másson, segir að breiðfylking verði mynduð og því fylgt eftir að staðið verði við gefin loforð.

Mikill munur á launum starfsmanna borgarinnar og bæjarfélaga

Munur á launum starfsmanna Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga getur verið mjög mikill og numið tugum þúsunda. Verkalýðs- og sjómannafélag Akraness hefur óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld til þess að leiðrétta muninn.

Vinnufriður til að smíða fjölmiðlalög

Vinnufriður ætti að vera kominn á til að smíða fjölmiðlalög. Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna ákváðu í morgun að fallast á málamiðlunartillögu menntamálaráðherra um hvernig staðið skuli að smíði nýs frumvarps.

ESB vill neyðarfund í byrjun febrúar

Evrópusambandið hefur farið þess á leit að alþjóða kjarnorkumálastofnunin haldi neyðarfund í byrjun febrúar vegna kjarnorkuþróunar Írana. Ef Bandaríkjamenn, Kínverjar og Rússar samþykkja fundinn eru yfirgnæfandi líkur á að málinu verði í kjölfarið skotið til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Stórefla þarf vöxt og viðgang hátæknifyrirækja

Stórefla þarf vöxt og viðgang íslenskra hátæknifyrirækja, ef það er yfir höfuð vilji stjórnvalda að þau starfi áfram hér á landi. Þetta kom fram á 400 manna fundi stjórnmálamanna, háskólanema og starfsfólks hátæknifyrirtækja sem haldinn var í Reykjavík í dag.

Húðflúrsstofa með tengsl við Vítisengla opnar á Íslandi

„House of pain", eða Hús sársaukans, er þekkt nafn á húðflúrstofum víða á Norðurlöndunum en þær eru reknar af hinum alræmdu vélhjólasamtökum Vítisenglunum, eða „Hell's Angels". Nú hefur verið opnuð enn ein stofan í þessari keðju og hún er hér á Íslandi.

Skipið rekur enn stjórnlaust austur af Langanesi

Rúmlega sjö þúsund tonna flutningaskip rekur enn stjórnlaust um tvö hundruð sjómílur austur af Langanesi en aðalvél skipsins bilaði í gær. Skipið, Wilson Tyne, er skráð á Möltu en gert út frá Noregi og var á leið til Grundartanga.

Gallar í virðisaukaskattskerfinu

Gallar eru í virðisaukaskattskerfinu hér á landi sem gerir að verkum að ríki og ríkisstofnanir hafa tilhneigingu til að byggja upp eigin starfsemi á sumum sviðum, t.a.m. sviði upplýsingatækni. Þetta segir Jón Steindór Valdimarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Fundað vegna kjarnorkuframleiðslu

Bandarískir og evrópskir ráðamenn funduðu í London í dag með rússneskum og kínverskum samstarfsbræðrum sínum. Tilgangurinn var að reyna að finna lausn á ágreiningi um hvaða skref eigi að stíga vegna frétta um að Íranir hafi ákveðið að hefja starfsemi á ný í kjarnorkurannsóknarstöð sinni.

Símar Landhelgisgæslunnar flestir sambandslausir

Símar Landhelgisgæslunnar eru flestir sambandslausir þessa stundina eftir að símastrengur í Holtsgötu slitnaði en þar standa nú yfir vegaframkvæmdir. Viðgerð stendur yfir og er vonast til að hún gangi fljótt fyrir sig. Hægt er að ná í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í símum: 511 3333, 569 4164 og 897 6383.

Halldór átti fund með eigendum DV

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra átti fund með eigendum DV fyrir einhverju síðan þar sem hann tjáði þeim að ef hann væri eigandi að svona blaði þá myndi hann ekki sofa vært á næturnar, og vísaði þar í fréttaflutning blaðsins og framsetningu frétta.

Munur á launum eftir sveitarfélögum

Nokkur munur er á launum starfsmanna Reykjavíkurborgar og starfsmanna Akranesbæjar fyrir sambærileg störf. Starfsmenn sem vinna til dæmis við ræstingu hjá Reykjavíkurborg fá rúmlega 9% hærri laun en starfsmenn sem starfa við ræstingu á Akranesi.

Markmið Alþingis hafa ekki gengið eftir

Upphaflegar væntingar og markmið Alþingis með aðild Íslands að "Samningnum um líffræðilega fjölbreytni" hafa ekki gengið eftir. Þetta fullyrðir Ríkisendurskoðun í tilkynningu sem send var fjölmiðlum síðdegis.

Málþing á Kjarvalsstöðum

Málþing um list Kjarvals, stöðu hans og áhrif verður haldið á Kjarvalsstöðum næstkomandi laugardag og er það tvískipt. Fyrri hlutinn fjallar um áhrif Kjarvals á samtíma sinn en seinni hlutinn um rannsóknir sem Kristín Guðnadóttir hefur gert á ferli listamannsins.

Bandarísk herþyrla sögð skotin niður

Bandaríks herþyrla hrapaði til jarðar norður af Bagdad í morgun, en samkvæmt vitnum var henni grandað með flugskeyti. Tveir menn eru taldir hafa verið í þyrlunni en afdrif þeirra eru óljós.

Samstarf í stað nefndar

Ekkert verður af því að menntamálaráðherra skipi nýja nefnd til að semja lagafrumvarp um fjölmiðla. Stjórnarandstaðan neitaði að tilnefna fulltrúa í nefndina en samþykkti að tilnefna fulltrúa sem vinna með lögfræðingum sem menntamálaráðherra hefur fengið til að semja frumvarpið.

Sirleaf tekin við í Líberíu

Ellen Johnson-Sirleaf sór í dag embættiseið sem forseti Líberíu í höfuðborginni Monróvíu, en hún er fyrst afrískra kvenna til að gegna leiðtogahlutverki í landi sínu. Þúsundir fylgdust með athöfninni, þeirra á meðal leiðtogar ýmissa annarra Afríkuríkja ásamt bæði forsetafrú og utanríkisráðherrra Bandaríkjanna.

Atvinnuleysi jókst lítillega

Atvinnuleysi mældist 1,5 prósent í desember og var lítið eitt meira en í mánuðinum á undan. Atvinnuleysi var þó talsvert minna en í desember fyrir einu ári þegar það mældist 2,7 prósent.

Vill leggja áformum um Norðlingjaölduveitu

Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðamaður forsætisráðherra, vill leggja áformum um Norðlingjaölduveitu til hliðar að því er fram kemur í pistli hans á heimasíðu hans. Ástæður þessa sinnaskipta segir Björn Ingi vera að forsendur málsins hafi breyst og að um framkvæmdirnar sé ekki sátt meðal heimamanna.

Efnistaka úr Ingólfsfjalli

Ásýnd Ingólfsfjalls mun breytast töluvert ef áform Fossvéla ehf. um efnistöku úr fjallinu verða að veruleika. Samkvæmt frummatsskýrslu Fossvéla mun fjallsbrún Ingólfsfjalls breytast á kafla við efnistökuna, færast innar og lækka um áttatíu metra og neikvæð, sjónræn áhrif verða mikil og óafturkræf. Eins munu rásir þar sem efni verður ýtt niður ofan af fjallinu skilja eftir sig mikil ummerki sem sjást frá þjóðvegi og nærliggjandi þéttbýlum.

Skipað í stjórn Hagþjónustu landbúnaðarins

Guðni Ágússon hefur skipað í stjórn Hagþjónustu landbúnaðarins. Stjórnina skipa: Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, formaður; Ríkharð Brynjólfsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, varaformaður; og Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands, meðstjórnandi. Varastjórn skipa: Eiríkur Hilmarsson, staðgengill hagstofustjóra og skrifstofustjóri Hagstofu Íslands; Áslaug Helgadóttir, aðstoðarrektor rannsóknamála og deildarstjóri auðlindadeildar Landbúnaðar-háskóla Íslands; og Gunnar Guðmundsson, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs Bændasamtaka Íslands.

Mótmæltu skráningu bjórfyrirtækis á markað

Þúsundir manna söfnuðust saman fyrir framan Kauphöllina í Bangkok í Taílandi í dag til að mótmæla áætlunum um að setja stærsta framleiðanda bjórs og sterks áfengis í landinu á markað. Yfirstjórn Kauphallarinnar fundaði í dag um málið en mótmælendur reyndu að hafa áhrif á niðurstöðuna með því að láta vel í sér heyra og veifa fánum með slagorðum gegn áfengi.

20 prósenta hækkun frá áramótum

Hlutabréf í Íslandsbanka og FL Group hafa hækkað um tuttugu prósent á þeim sextán dögum sem eru liðnir frá áramótum. Verðmæti Íslandsbanka eins og sér fer nú nærri að vera sama og áætluð útgjöld ríkissjóðs í ár samkvæmt fjárlögum.

Álverð aldrei hærra

Landsvirkjun hagnast verulega um þessar mundir á því að álverð á heimsmarkaði hækkar ört, en raforkuverð til álveranna hækkar ef álverð hækkar á heimsmarkaði.

Tvö innbrot í bíla

Rólegt hefur verið hjá lögreglunni í Reykjavík í morgun og svo virðist sem fólk sé farið að venjast færðinni og fari varlegar en ella. Aðeins hefur verið tilkynnt um eitt umferðaróhapp og tvö innbrot í bíla í morgun.

Stjórnlaust skip

Rúmlega sjö þúsund tonna flutningaskip, skráð á Möltu, sem var á leið frá Norður-Noregi til Grundartanga, rekur stjórnlaust um 200 sjómílur norðaustur af Langanesi eftir að aðalvél skipsins bilaði þar í gær.

Ráða ráðum sínum gegn Norðlingaölduveitu

Stjórnarandstæðingar komu saman til fundar á tólfta tímanum til að ræða sameiginlegan málflutning gegn því að ráðist yrði í framkvæmdir við Norðlingaölduveitu.

ENA stofnar þjónustunet

Stofnað hefur verið þjónustunet sem leysa á úr ágreininingsefnum milli kaupanda og seljenda yfir landamæri innan Evrópu. Markmið þjónustunetsins er að auka traust neytenda á Evrópu sem einu markaðssvæði. Til að kynna starfsemi sína hefur ENA, Evrópska neytendaaðstoðin, útbúið bæklins sem nálgast má á heimasíðu þeirra.

Vonar að tillagan verði samþykkt

Ólafur F. Magnússon ber upp tillögu um verndun Þjórsárvera í borgarstjórn á morgun og binda F-lista menn miklar vonir við að hún verði samþykkt en það yrði þá í fyrsta skipti sem borgarstjórn leggst gegn áformum ríkisvaldsins og Landsvirkjunar í virkjanamálum.

Nýskráðir bílar rúmum 52 prósentum fleiri í fyrra en árið 2004

Íslendingar að og Lettar bera höfuð og herðar yfir aðrar Evrópuþjóðir þegar miðað er við aukningu á nýskráðum bílum á milli ára. Nýskráningar jukust um ríflega 52 prósent hér á landi í fyrra miðað við árið 2004 en nýskráðum bílum á Evrópska efnahagssvæðinu öllu fækkaði hins vegar lítillega milli ára.

Máli Bubba gegn 365-prentmiðlum frestað

Fyrirtöku í meiðyrðamáli Bubba Morthens gegn 365-prentmiðlum sem átti að vera í dag var frestað þar sem lögmaður Bubba, Sigríður Rut Júlíusdóttir, er veik. Ný dagsetning á fyrirtöku málsins liggur ekki fyrir.

Grunaðir um að berja heimilislausan mann til bana

Tveir unglingspiltar í Fort Lauderdale í Flórída eru í haldi lögreglu grunaðir um að hafa barið þrjá heimilislausa menn aðfaranótt fimmtudagsins, en einn þeirra lést af sárum sínum. Myndir af því einni árásanna þar sem maður var barinn með hafnaboltakyflum náðust á eftirlitsmyndavél en tilkynnt var um tvær aðrar árásir á heimililislausa þessa nótt.

Sheikh Jaber al-Ahmad al-Sabah látinn

Sheikh Jaber al-Ahmad al-Sabah, Emírinn af Kúveit, er látinn 77 ára að aldri. Emírinn var þrettándi einræðisherrann úr fjölskylduveldinu sem ríkt hefur í Kúveit í 245 ár. Kúveitar er tíundi stærsti olíuframleiðandi heims og þar búa um það bil tvær komma tvær milljónir manna. Eftir fall Saddams Husseins fyrrum einræðisherra nágrannaríkisins Íraks, hefur krafan um lýðræði í Kúveit sífellt orðið meiri.

Kasta sætindum fyrir svín

Þeir kasta ekki perlum fyrir svín í Danmörku heldur sælgæti ef marka má fréttir í danska blaðinu Politiken. Þar segir að lítill hópur danskra svínabænda hafi tekið upp á því að gefa grísum sínum bæði hlaup, súkkulaði og lakkrís í bland við aðra hollari fæðu þar sem það er um helmingi ódýrara en korn.

Ehud Olmert stýrir Kamida flokknum

Ehud Olmert, starfandi forsætisráðherra Ísraels, var í dag valinn til að stýra Kamidaflokknum í veikindaforföllum Ariels Sharons forsætisráðherra. Kemur það í hlut Olmerts að leiða flokkinn í kosningabaráttunni sem framundan er en kosningar fara fram í Ísrael þann 28. mars næst komandi.

Börðu þrjá heimilislausa menn

Tveir unglingspiltar í Fort Lauderdale í Flórída eru í haldi lögreglu grunaðir um að hafa barið þrjá heimilislausa menn aðfaranótt fimmtudagsins, en einn þeirra lést af sárum sínum. Myndir náðust á eftirlitsmyndavél af einni árásanna. Þær hafa vakið mikinn óhug í Bandaríkjunum en drengirnir eiga yfir höfði sér morðákæru vegna málsins.

Telur óraunhæft að refsa fyrir vændiskaup

Jafnréttisráðherra Noregs, Karita Bekkemellem, telur óraunhæft að refsa þeim sem nýta sér vændisþjónustu. Hún vill beita forvörnum til þess að koma vinna bug á vændi og mansali í landinu. Frá þessu er greint í norska blaðinu Verdens Gang.

Heimsmarkaðsverð á áli hækkar ört

Álverð á heimsmarkaði hækkar nú ört og hefur þegar hækkað um rúm sex prósent frá áramótum, eða á hálfum mánuði. Síðustu sex mánuði nýliðins árs hækkaði það um rösk 30 próent og samkvæmt Reuters fréttastofunni er það nú komið upp í 2388 dollara tonnið, sem er hæsta heimsmarkaðsverð í 17 ár. Landsvirkjun hagnast væntanlega á þessu því raforkuverð til álveranna hér á landi tekur ákveðið mið af heimsmarkaðsverði á áli.

Trúfélög fái að gefa samkynhneigða saman

Siðmennt, félag siðrænna húmanista, hvetur allsherjarnefnd Alþingis til að breyta hjúskaparlögum þannig að skráð trúfélög fái að gefa saman samkynhneigða einstaklinga. Þannig geti trúfélög sem það vilja gefið saman samkynhneigð pör en önnur séu ekki skyldug til þess.

Sirleaf tekur við sem forseti Líberíu

Ellen Johnson-Sirleaf sver í dag embættiseið sem forseti Líberíu, en hún er fyrst afrískra kvenna til að gegna leiðtogahlutverki í landi sínu. Búist við fjölmörgum háttsettum gestum frá öðrum Afríkuríkjum og ríkjum víða um heim á embættistökuna í höfuðborginni Monróvíu en mikill viðbúnaður er vegna hennar.

Talibanar hóta frekari árásum

Talíbanar hóta frekari árásum á hermenn en kanadamaður og tveir Afganir féllu í sjálfsmorðstilræði í Suður-Afganistan í gær. Þá særðust 13 manns til viðbótar en alls hafa 25 sjálfsmorðssprengjuárásir verið gerðar í landinu á síðustu fjórum mánuðum. Kanadamaðurinn sem lést var starfsmaður endurreisnarsveitar alþjóðlegur friðargæslunnar í Afganistan. Alls hafa því níu Kanadamenn fallið í landinu frá árinu 2002.

Mikið snjóað í Pakistan

Mikið hefur snjóað í Pakistan yfir helgina og gert þeim tug þúsundum sem búa upp til fjalla enn erfiðara fyrir. Talið er að yfir þrjár milljónir manna séu heimilislausir eftir jarðskjálftann þar í landi sem varð í október á síðasta ári. Áframhaldandi snjókomu er spáð næstu daga og óttast yfirvöld að hundruð manna muni farast vegna mikilla vetrarkulda. Talið er að um 90 þúsund manns hafi farist í jarðskjálftanum og segja Sameinuðu þjóðirnar ekki ólíklegt að jafn margir ef ekki fleiri farist í kuldunum á næstu vikum og mánuðum.

Ró á fasteignamarkaði

Nær helmingi færri fasteignir seldust á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku en í meðalviku. Alls seldust 88 eignir en síðustu tólf vikur hafa að meðaltali selst 150 íbúðir á viku.

Sjá næstu 50 fréttir