Innlent

Mikill munur á launum starfsmanna borgarinnar og bæjarfélaga

MYND/Vísir

Munur á launum starfsmanna Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga getur verið mjög mikill og numið tugum þúsunda. Verkalýðs- og sjómannafélag Akraness hefur óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld til þess að leiðrétta muninn.

Dæmi eru um að starfsmenn borgarinnar séu með 26% hærri laun en starfssystkin þeirra á Akranesi. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélag Akraness, segir launamuninn óásættanlegan og mun hann ræða við bæjaryfirvöld eftir launaráðstefnu sveitarfélaganna þann 20. janúar, og þá ætlar hann að fara fram á að kjarasamingar verði samræmdir samningum Eflingar. Vilhjálmur segir að það verði að grípa til einhverra aðgerða.

Hann segir Steinunni Valdísi borgarstjóra eiga heiður skilinn fyrir að hafa riðið á vaðið og hækkað laun þeirra sem minnst hafa og segir hana hafa sýnt gott fordæmi. Nú sé stutt í kosningar og því lag fyrir sveitarstjórnarmenn að sýna sig og taka á þessum málum. Og Vilhjálmur gefur lítið fyrir þau orð að launahækkanir sem þessar muni hleypa upp verðbólgunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×