Innlent

Efnistaka úr Ingólfsfjalli

Ásýnd Ingólfsfjalls mun breytast töluvert ef áform Fossvéla ehf. um efnistöku úr fjallinu verða að veruleika. Samkvæmt frummatsskýrslu Fossvéla mun fjallsbrún Ingólfsfjalls breytast á kafla við efnistökuna, færast innar og lækka um áttatíu metra og neikvæð, sjónræn áhrif verða mikil og óafturkræf. Eins munu rásir þar sem efni verður ýtt niður ofan af fjallinu skilja eftir sig mikil ummerki sem sjást frá þjóðvegi og nærliggjandi þéttbýlum. Á hinn boginn yrði rykmengun lítil og afturkræf, dýralíf héldist óbreytt og framkvæmdirnar myndu hafa góð áhrif á umferð og jákvæð áhrif á samfélagið. Gert er ráð fyrir allt að tveggja milljóna rúmmetra efnistöku úr fjallinu næstu tíu til fimmtán árin.

Frummatsskýrslan er til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun Íslands og hefur hún leitað umsagnar hjá Sveitarfélaginu Ölfusi, Sveitarfélaginu Árborg, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Umhverfisstofnun. Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir sem skulu berast eigi síður en 24. febrúar næst komandi. Frummatsskýrsluna er hægt að nálgast hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×