Innlent

Nýskráðir bílar rúmum 52 prósentum fleiri í fyrra en árið 2004

MYND/GVA

Íslendingar að og Lettar bera höfuð og herðar yfir aðrar Evrópuþjóðir þegar miðað er við aukningu á nýskráðum bílum á milli ára. Nýskráningar jukust um ríflega 52 prósent hér á landi í fyrra miðað við árið 2004 en nýskráðum bílum á Evrópska efnahagssvæðinu öllu fækkaði hins vegar lítillega milli ára.

Samband evrópskra bílframleiðenda birti í dag tölur yfir nýskráða bíla í löndum Evrópusambandsins og EFTA-löndunum. Þar kemur fram að rúmlega 15,2 milljónir fólksbíla voru skráðar í löndunum á síðasta ári, þar af um tíu milljónir í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Bretlandi.

Hér á landi voru hins vegar 18.211 nýir fólksbílar skráðir í fyrra en þeir voru 11. 968 árið 2004. Það er 52,2 prósenta aukning frá fyrra ári. Lettar einir eru nálægt því að skáka Íslendingum á þessu sviði en nýskráningar bíla í Lettlandi jukust um 48,2 prósent á milli ára. Þar á eftir koma Danir með ríflega 20 prósenta aukningu og Eistar með átján prósent. Pólverjar skráðu hins vegar mun færri bíla í fyrra en árið 2004 og nam fækkunin 26 prósentum.

Samband evróskra bílframleiðenda birtir líka yfirlit yfir það hvaða bíltegundir eru vinsælastar hjá Evrópubúum. Volkswagen trónir á toppnum með rúmlega 19 prósenta markaðshlutdeild, þar á eftir koma framleiðendur Peugeot og Citroën með 13,5 prósenta hlutdeild og framleiðendurnir Ford og General Motors hafa hvor um sig nærri ellefu prósenta hlutdeild á markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×