Lífið

Eldri bróðir lagði línur að lífinu í New York

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Forritarinn Árni Freyr Magnússon nýtur lífsins í New York og útskrifaðist með meistaragráðu frá Columbia háskólanum.
Forritarinn Árni Freyr Magnússon nýtur lífsins í New York og útskrifaðist með meistaragráðu frá Columbia háskólanum. Aðsend

„Ég hélt alltaf að það væri einhver leikþáttur hjá kananum að vera svona „næs“ en það kom mér á óvart að hann er yfirleitt einlægt bara svona,“ segir forritarinn Árni Freyr Magnússon sem flutti til New York til að fara í meistaranám við hinn virta háskóla Columbia. Í kjölfarið fékk hann vinnu hjá sprotafyrirtæki í Brooklyn og þá var ekki aftur snúið.

Árni Freyr nýtur fjölbreytileika stórborgarinnar þar sem hann hjólar um og samhliða amstri dagsins er hann að undirbúa sig fyrir hálfmaraþon. Blaðamaður ræddi við hann um daglegt líf úti.

Árni Freyr býr í hipp og kúl hverfinu Dumbo í Brooklyn og heldur góðri tengingu við Ísland, samanber Loga Geirs á skjánum.Aðsend

Hvað varð til þess að þú fluttir til New York?

Það var búið að standa lengi til að fara í meistaranám út. Elsti bróðir minn lærði í Columbia áratugi fyrr og ég mundi vel eftir New York heimsóknunum sem polli, svo þegar ég komst inn í nám þar stökk ég á tækifærið.

Útskrift Óskars Inga elsta bróður Árna árið 2013, lagði línurnar!Aðsend

Hvað hefurðu búið þar lengi?

Í rúm tvö ár, flutti út í ágúst 2023

Árni flutti út 2023 og er hér með íslenska útskriftarárgangnum frá Columbia 2025, með Árna eru Gunnar Helgi og Elísa Karen á myndinni.Aðsend

Hvað ertu að gera þar?

Ég flutti út í meistaranám við Columbia háskóla og er núna að vinna sem forritari hjá litlu sprotafyrirtæki í Brooklyn sem heitir Daze.

Árni ásamt vinnufélögum fyrsta vinnudaginn hans úti.Aðsend

Hefurðu búið annars staðar erlendis?

Já, haustið 2020 tók ég góða Covid-skiptinámsönn í Zürich í Sviss. 

Mjög notalegt í alla staði nema að ég bjó við hliðina á lestarteinum svo íbúðin hristist öll til við og við þegar þær áttu leið hjá.
Frændur í Covid einangrun í Zürich haustið 2020.Aðsend

Hvernig hefur daglegt líf verið hjá þér í stórborginni?

Virkir dagar eru allir svipaðir, hjóla í vinnuna, hádegismatur með teyminu og klára vinnu um 18:00. Þá ýmist hitti ég vini, hreyfi mig, athuga nýja veitingastaði eða bara dríf mig heim. 

Bræðurnir Árni og Óskar eftir leik Djokovic á US Open.Aðsend

Maður reynir að nýta helgarnar í að hitta vini og stundum að taka lestina út úr borginni ef maður er alveg að drepast á steypunni.

Árni á listasýningaropnun vina sinna úti í New York.Aðsend

Hvað er skemmtilegast við lífið úti?

Það er alltaf eitthvað um að vera, tónleikar, hlaup, fólk í heimsókn og gott veður. 

Borgin er líka svo risastór, maður er enn að athuga ný hverfi, veitingastaði og svo framvegis.

Árni með félaga sínum á Fred again tónleikum.Aðsend

Hefurðu fundið fyrir heimþrá?

Hundrað prósent, allra verst um hásumar þegar það er ólíft hér, hitinn í kringum 35 stig og maður hleypur bara úr einni loftræstingunni í aðra, á meðan fólkið heima lifir sínu notalega íslenska sumarlífi.

Strandblak í stórborginni!Aðsend

Hvað er framundan?

Það er lítið nema vinna núna yfir vetrarmánuðina, en þegar það fer að vora þá stendur til skoða Yosemite fyrir vestan, fara í silungsveiði í Catskills og hlaupa United hálfmaraþonið.

Árni eftir hálfmaraþonið í fyrra með vinum sínum Klöru og Braga.Aðsend

Hvað hefur komið þér mest á óvart við lífið úti?

Ég hélt alltaf að það væri einhver leikþáttur hjá kananum að vera svona „næs“ en kom mér á óvart að hann er yfirleitt einlægt bara svona. 

Skýt líka inn í að það er nokkuð þéttara net Íslendinga en ég átti von á.

Síðasta þakkargjafarhátið Árna sem segir: Vinnufélagi minn t.v. og vinur minn t.h.. Ég var trompaður þar sem tveir töluðu ekki ensku en ég var sá eini sem talaði ekki spænsku, svo það reyndi á menntaskólaspænskuna!Aðsend

Hvað er það steiktasta eða fyndnasta sem þú hefur lent í úti?

Ég átti mjög steiktan hálftíma um árið. Ég sit úti í garði, skrepp frá að fá mér í gogginn, kem aftur og sest skammt frá. Allt í einu svífur á mig kona, sem útskýrir fyrir mér á úkraínsku að það höfðu verið heyrnartól eftir þar sem ég sat áður, og að einhver kona hefði tekið þau.

Ég þreifa um í vösunum og átta mig á að AirPods-in mín eru hvergi. Ég stekk til, vopnaður „Find my“ leitarforritinu  í símanum eins og málmleitartæki og eftir litla leit beinast öll spjót að gamalli konu sem sat rétt hjá.

Google translate þýðingar á milli Árna og úkraínsku konunnar.Aðsend

Hún þvertekur fyrir að hafa einu sinni séð svona heyrnartól og kjagar burt. Ég athuga símann - heyrnartólin kjaga með. 

Fer það svo að hún losar sig við gripinn á leið út úr garðinum, síminn beinir mér að ruslatunnu og þá hafði hún blessunin bara hent tólunum sjálfum, en rænt hulstrinu. Hugsa oft um hana.

Sérðu fyrir þér að búa alltaf úti eða kallar Ísland á þig?

Ég sé mig alltaf enda á Íslandi, en á meðan það er gaman hér úti hugsa ég að ég bíði með að flytja heim.

Geggjað útsýni úr vinnunni hjá Árna.Aðsend

Hvað stendur upp úr frá lífinu úti hingað til?

Það eru bara litlu hlutirnir, manni þykir vænt um lífið sem maður hefur byggt upp hér, vinnan og vinabúskapurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.