Innlent

Segir Við­reisn harðsnúnasta sér­hags­muna­gæslu­flokk seinni tíma

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Kaldal biðlar til Ingu Sæland að stöðva fyrirhugaðar áætlanir Hönnu Katrínar.
Jón Kaldal biðlar til Ingu Sæland að stöðva fyrirhugaðar áætlanir Hönnu Katrínar. Vísir/Vilhelm/Lýður

Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, biðlar til Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, að grípa í taumana og stöðva þau áform sem birtast í frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra.

Jón ritar harðorða grein á Vísi þar sem hann vitnar í frumvarp til laga um lagareldi sem Hanna Katrín lagði fram til samráðs seint í desember:

„Rekstrarleyfishafi skal greiða árlegt umhverfisgjald vegna affalla í sjókvíaeldi.“

Þetta þýðir á venjulegri íslensku að fyrirtæki sem stundar sjókvíaeldi á laxi skuli greiða árlega gjald fyrir laxana sem það lætur drepast í kvíum sínum.

„Í drögum Hönnu Katrínar er hvergi nefnt að fyrirtæki sem fara svo illa með eldisdýrin sín að þau drepast í stórum stíl muni missi leyfi til að ala dýr. Þau skulu hins vegar greiða gjald fyrir það í ríkissjóð,“ ritar Jón háðskur í texta sínum.

Hann gagnrýnir harðlega hina pólitísku sýn sem birtist í þessum drögum Hönnu Katrínar en þau gera … „Viðreisn ekki aðeins að harðsnúnasta stóriðju- og sérhagsmunagæsluflokki seinni tíma heldur fer líka af hörku gegn sjónarmiðum kjósenda Viðreisnar og hinna flokkanna í ríkisstjórn landsins.“

Jón er orðinn harla vondaufur um að þessi mál verði tekin þeim tökum sem hann telur eðlileg og reyndar meirihluti almennings samkvæmt skoðanakönnunum. „Samstarfsflokkar Viðreisnar hljóta að taka í taumana. Vonandi eiga málleysingjarnir áfram traust skjól hjá Ingu Sæland. Það dýraníð á iðnaðarskala sem Hanna Katrín boðar má ekki verða að lögum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×