Lífið

Enn reið Tarantino vegna þess sem hann gerði ís­lenskum konum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Unnur Eggertsdóttir segir Tarantino hafa hrint af stað ferðamannabylgju graðra, tilætlunarsamra karla sem komu til landsins eftir að hann lýsti íslenskum konum sem lauslátum.
Unnur Eggertsdóttir segir Tarantino hafa hrint af stað ferðamannabylgju graðra, tilætlunarsamra karla sem komu til landsins eftir að hann lýsti íslenskum konum sem lauslátum. Vísir/Vilhelm/Getty

Unnur Eggertsdóttir segist eiga í opinberum einhliða deilum við leikstjórann Quentin Tarantino eftir að hann dró upp mynd af íslenskum konum sem drykkfelldum og lauslátum í spjallþætti fyrir tuttugu árum. Vill hún meina að lýsingar Tarantino hafi hrint af stað bylgju karlkyns ferðamanna sem komu til Íslands og töldu sig eiga rétt á skyndikynnum.

Unnur Eggertsdóttir, leikkona og textasmiður hjá auglýsingastofunni Maurum, hefur frá október haldið úti TikTok-aðganginum „youcancallmeuna“ þar sem hún fjallar á ensku um ýmislegt sem viðkemur Íslandi.

Sjá einnig: Unnur Eggerts kom íslenska innsoginu á kortið

Unnur hefur gert rúmlega sextíu myndbönd og tugþúsundir horft á mörg þeirra. Allra vinsælasta myndband hennar hefur fengið meira en 350 þúsund áhorf og fjallar um opinberar einhliða deilur hennar við Hollywood-leikstjórann Quentin Tarantino.

„Sem íslensk kona hata ég það sem Quentin Tarantino gerði við orðstír okkar. Einn síns liðs byrjaði hann þessa skrítnu ferðamannabylgju með einu viðtali,“ segir Unnur í upphafi myndbandsins.

Íslenskar konur ofurölvi ofurfyrirsætur

Unnur er þar að vísa til viðtals sem Tarantino fór í hjá spjallþáttastjórnandanum Conan O'Brien í byrjun árs 2006 til að ræða hrollvekjuna Hostel (2006) og kynni sín af Íslandi og íslenskum konum.

Tarantino lýsti þar gamlárspartýi sem hann hafði farið í hérlendis nokkrum dögum fyrir viðtalið. Sagði hann Íslendinga fara algjörlega yfir um af drykkju á gamlársdag, sérstaklega konurnar. Frá hans sjónarhorni liði honum eins og hann væri í herbergi fullu af öskursyngjandi, ofurölvi ofurfyrirsætum.

Íslenskar konur væru eins og „ofurfyrirsætur sem ynnu hjá McDonald's“ og undraðist Conan þá að Íslendingar skyldu ekki fá Tarantino til að sjá um kynningarefni fyrir landið.

„Vanalega í Bandaríkjunum þá er hugmyndin að gera stelpurnar nógu fullar til að þær komi heim með þér. Á Íslandi þarftu að koma stelpunum heim til þín áður en þær verða svo fullar að þær deyja áfengisdauða á klósettinu þínu eða gubba yfir þig,“ sagði Tarantino um menningarmuninn.

„Þetta eru góð skilaboð fyrir alla fjölskylduna,“ svaraði Conan þá léttur í lund.

Þremur dögum fyrr hafði fréttin „Tarantino með íslenskri snót á Tapas“ einmitt birst á Vísi en þar sagði frá því að leikstjórinn hefði skellt sér á Tapasbarinn og snætt kvöldverð „með ungri íslenskri snót“. Fóru þau í óvissuferðarseðilinn og drukku kokteila.

„Ég vildi að þú hefðir ekki gert þetta, gaur“

Unnur viðurkennir í myndbandi sínu að brandari Tarantino hefði verið nokkuð fyndinn og ekki alveg ósannur. Hins vegar hefðu afleiðingarnar verið hræðilegar því viðtalið hefði hrint af stað ferðamannabylgju karla sem komu sérstaklega til Íslands vegna „lauslátra kvenna“ landsins.

„Ég var á hápunkti partýtímabils míns á þessum tíma og þetta var algjör katastrófa. Allir þessir gaurar komu til Íslands og bjuggust við því að konurnar myndu kasta sér fyrir fætur þeirra og urðu svo reiðir þegar það gerðist ekki,“ segir Unnur.

Partýstand Unnar náði hápunkti á svipuðum tíma og graðir erlendir menn flykktust til landsins í von um að fá á broddinn.Vísir/Vilhelm

Hún rifjar upp eitt skipti þegar hún var á skemmtistað með vinkonu sinni og hóf að spjalla við bandaríska ferðamenn. Á innan við fimm mínútum hafi þeir spurt hvort þær vildu ekki koma með þeim á hótelið.

„Nei, við erum góðar,“ hafi þær svarað og þeir þá spurt reiðilega: „Eigið þið ekki að vera súper druslulegar?“

Sú saga væri bara ein af mörgum af sambærilegum ferðamannagaurum sem hefðu komið til Íslands í von um að fá á broddinn. Þess vegna væri hún enn fúl út í Tarantino fyrir viðtalið.

„Því fullt af þessum gaurum sem komu, sögðu: „Tarantino sagði að þetta væri aðalstaðurinn.“ Svo þetta er opinber deila mín við Quentin Tarantino. Ég vildi að þú hefðir ekki gert þetta, gaur,“ sagði hún svo.

„Auðvitað ef þú vilt ráða mig í mynd þá tek ég því sem opinberri afsökunarbeiðni,“ sagði hún hins vegar að lokum. Myndbandið má svo sjá hér að neðan.

@youcancallmeuna My very public and not one-sided feud with Quentin Tarantino 😤 #iceland #icelandic #culturetiktok #quentintarantino #fyp ♬ original sound - Una Eggertsdóttir 🇮🇸 in 🇺🇸

Tengdar fréttir

Tarantino lentur og fagnar nýju ári á Íslandi

Leikstjórinn síglaði Quentin Tarantino ætlar að fagna nýju ári á Íslandi. Tarantino sem fyrir löngu er orðinn einn af bestu vinum Íslands kom með flugi frá New York í morgun.

Eyðir áramótunum á Íslandi

„Ég er alveg ótrúlega hamingjusamur yfir að vera kominn til Íslands, brosi bara allan hringinn,“ segir þýski leikarinn Daniel Brühl sem leikur eitt aðalhlutverkanna í íslensku kvikmyndinni Kóngavegur 7 en leikstjóri hennar er Valdís Óskarsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.