Fótbolti

„Sagði við Albert að ég ætlaði að reyna að finna hann eins mikið og ég gat“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson fylgist með sveitunga sínum, Hákoni Arnari Haraldssyni, láta vaða á mark Aserbaísjan.
Ísak Bergmann Jóhannesson fylgist með sveitunga sínum, Hákoni Arnari Haraldssyni, láta vaða á mark Aserbaísjan. getty/Aziz Karimov

Ísak Bergmann Jóhannesson var sáttur eftir sigur Íslands á Aserbaísjan, 0-2, í undankeppni HM 2026 í kvöld. Á sunnudaginn mæta Íslendingar Úkraínumönnum í hreinum úrslitaleik um sæti í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu.

„Þetta var mjög þroskuð frammistaða. Við töluðum um að við þyrftum ekki að vinna fimm eða sex núll. Við unnum 2-0, héldum hreinu, skoruðum eftir fast leikatriði og þetta var mjög þroskuð frammistaða,“ sagði Ísak í samtali við Val Pál Eiríksson eftir leikinn í Bakú.

Klippa: Viðtal við Ísak Bergmann

Ísak lagði fyrra mark Íslands upp fyrir Albert Guðmundsson. Hann átti þá hárnákvæma sendingu inn fyrir vörn Aserbaísjan á Fiorentina-manninn sem skoraði.

„Í morgun sagði ég við Albert að ég ætlaði að reyna að finna hann eins mikið og ég gat. Svo sá ég hann aleinan inni í teig. Hann er það góður í fótbolta að hann finnur alltaf pláss og ég reyni að finna hann,“ sagði Ísak.

Íslendingar voru 0-2 yfir í hálfleik og tóku lífinu með nokkurri ró í seinni hálfleik, að skipan landsliðsþjálfarans Arnars Gunnlaugssonar.

„Eins og Arnar sagði fyrir leik þurfum við ekki að koma hingað og spila einhvern geggjaðan fótbolta, þótt við höfum gert það í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik var þetta aðeins erfiðara en við lokuðum leiknum 0-2 og þetta var bara flott,“ sagði Ísak.

Frakkland og Úkraína mætast seinna í kvöld en úrslitin í þeim leik stjórna því hvort Íslandi dugi jafntefli í úrslitaleiknum á sunnudaginn eða þurfi að vinna. Ísak segir að Íslendingar ætli að vaka eftir leik Frakka og Úkraínumanna.

„Arnar fær sér kannski rauðvín og steik en það er bara einbeiting hjá okkur. Við njótum þess að horfa á hann og sjáum hvað gerist,“ sagði Ísak að endingu.

Horfa má á viðtalið við Ísak í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×