Veður

Búast við auknu á­lagi á fráveitu vegna mikillar úr­komu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum svo vatn komist greiða leið.
Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum svo vatn komist greiða leið. Vísir/Vilhelm

Gul veðurviðvörun tekur gildi víða um land síðdegis í dag og gildir víðar fram á miðjan dag á morgun. Í tilkynningu frá Veitum segir að samhliða mikilli úrkomu megi gera ráð fyrir auknu álagi á fráveitukerfið sem muni þurfa að taka við miklu vatnsmagni á stuttum tíma.

Í tilkynningunni er að finna ýmis ráð fyrir íbúa og fólk til dæmis hvatt til þess að hafa samband við dælubíl ef vatn flæðir upp úr niðurföllum í húsum auk þess sem það er minnt á mikilvægi þess að halda niðurföllum hreinum og fjarlægja laufblöð til dæmis frá þeim sem geti hindrað för vatnsins.

Í tilkynningunni segir að fráveitukerfi Veitna sé tvískipt. Hluti þess sé með tvöfalt kerfi sem þoli úrkomu ágætlega, en hinn hlutinn sé ekki eins vel búinn til að taka á móti svo miklu vatni í einu. Þar get skapast hætta á að vatn flæði upp úr niðurföllum þegar lagnir fyllast tímabundið af regnvatni.

Víða geta myndast vatnselgir í mikilli úrkomu. Vísir/Vilhelm

„Ef vatn flæðir upp úr niðurföllum í húsum er mikilvægt að hafa í huga að það stafar af yfirfullu kerfi og hafa þarf samband við dælubíl. Mikilvægt er að setja ekki vatn í niðurföllin við slíkar aðstæður, heldur beina því t.d. út í garð ef kostur er. Annars er hætta á að vatnið komi einfaldlega aftur upp úr niðurföllunum.

Á þessum árstíma, þegar laufblöðin eru byrjuð að fjúka og safnast fyrir í niðurföllum, skiptir miklu máli að hreinsa þau reglulega. Lauf og annað rusl geta hindrað vatnsflæði og valdið því að vatn safnist fyrir á götum. Með því að halda niðurföllum hreinum gefum við vatninu greiðari leið niður í fráveituna og drögum úr líkum á flóðvatni á yfirborði.

Athugið þó að öryggi fólks á alltaf að vera í fyrirrúmi og enginn á að leggja sig í hættu í veðurofsa,“ segir í tilkynningunni.

Hér að neðan má svo finna leiðbeiningar við ólíkum aðstæðum sem geta komið upp þegar álag á fráveituna eykst:

Ef það flæðir inn til þín

  • Hringdu á dælubíl eða stífluþjónust
  • Hafðu samband við tryggingarfélagið þitt
  • Skoðaðu niðurföll og reyndu að greina hvar vatnið er að koma inn.

Útiniðurföll:

  • Við óvenjumikla úrkomu er algengt að útiniðurföll flæði yfir. Þá geta íbúar lítið gert annað en að reyna að lágmarka tjón.
  • Mælt er með að loka hurðum og þétta veikburða svæði eins og unnt er til að hindra vatnsinntak.
  • Ef niðurföll utandyra eru stífluð er æskilegt að reyna að hreinsa þau þegar það er öruggt og veður leyfir.
  • Mundu að öryggi fólks skal alltaf hafa forgang.

 Inni niðurföll:

  • Ef vatn kemur upp um niðurföll inni er mögulegt að dæla því annað.
  • Ekki dæla vatni í baðkar eða niðurföll utandyra, þar sem þau eru yfirleitt tengd sama kerfi og vatnið myndi þá einfaldlega koma aftur inn.
  • Betra er að reyna að dæla vatninu út í garð eða annað svæði utandyra.

Ef það er dæla í kjallaranum hjá þér:

  • Athugaðu hvort hún sé í gangi.
  • Hreinsaðu dæluna og dælubrunninn ef þarf.
  • Hafðu samband við pípara ef þú þarft aðstoð

Neyðarlúgur gætu opnast vegna mikillar úrkomu

Neyðarlúgur fráveitu eru til þess gerðar að skólp flæði ekki inn í híbýli fólks ef dælustöðvar bila eða stöðvast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×