Íslenski boltinn

Fá góðar fréttir fyrir stærsta leik í sögu fé­lagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fatai Gbadamosi er einn mikilvægasti leikmaður Vestra.
Fatai Gbadamosi er einn mikilvægasti leikmaður Vestra. vísir/diego

Stuðningsmenn Vestra hafa fengið góðar fréttir fyrir úrslitaleik Mjólkurbikars karla því einn af lykilmönnum liðsins hefur framlengt samning sinn við það.

Fatai Gbadamosi hefur spilað einkar vel fyrir Vestra í sumar og vakið athygli fyrir góða spilamennsku á miðju Ísfirðinga.

Þessi 26 ára Nígeríumaður hefur nú skrifað undir nýjan samning við Vestra sem gildir til 2028. Fatai hefur leikið með Vestra undanfarin þrjú ár. Hann kom til liðsins frá Kórdrengjum þar sem hann lék undir stjórn Davíðs Smára Lamude, þjálfara Vestra.

Vestri mætir Val í úrslitaleik Mjólkurbikarsins annað kvöld. Vestri á góðar minningar frá Laugardalsvellinum því fyrir tveimur árum vann liðið Aftureldingu, 1-0, í úrslitaleik umspils um sæti í Bestu deildinni.

Vestri lenti í 10. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili en hefur gert það gott í sumar. Liðið er í 5. sæti deildarinnar með 26 stig. Ekkert lið hefur fengið á sig færri mörk í Bestu deildinni í sumar en Vestri, eða nítján.

Leikur Vestra og Vals hefst klukkan 19:00 á morgun og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×