Innlent

Sérsveitin kölluð út: Fjöldi hand­tekinn eftir hús­leit í Gnoðarvogi

Agnar Már Másson skrifar
Lögreglan leiddi fjóra úr íbúðinni, þar af þrjá í járnum.
Lögreglan leiddi fjóra úr íbúðinni, þar af þrjá í járnum. Samsett Mynd

Vopnaðir sérsveitarmenn voru kallaðir út í aðgerð í Gnoðarvogi í Reykjavík í kvöld og voru fjórir leiddir út úr húsnæði þar, þar af þrír í handjárnum að sögn sjónarvotts. Heimildir fréttastofu herma að ráðist hafi verið í svipaðar aðgerðir á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu í kvöld.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir aðstoð sérsveitarinnar vegna aðgerðarinnar, staðfestir Helena Rós Sturludóttir upplýsingafulltrúi embættis ríkislögreglustjóra í samtali við Vísi. Að öðru leyti vísaði Helena á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. 

Ekki hefur tekist að ná í fulltrúa lögreglunnar á viðeigandi lögreglustöð vegna málsins.

Þrír sérsveitarbílar mættu á vettvang að sögn sjónarvotta.Aðsend

Sjónarvottur segir að vopnaðir sérsveitarmenn hafi farið inn í íbúð við Gnoðarvog 44 og leitt fjóra þaðan út, þar af þrjá handjárnaða. 

Á myndum má sjá að ein kona hafi verið handtekin og tveir karlmenn. Sá fjórði, sem var ekki í handjárnum, var karlmaður. 

Sjónarvotturinn mun hafa séð inn um gluggann á húsinu að sérsveitarmenn kíktu undir sængur inni í íbúðinni.

Heimildir fréttastofu herma að aðgerðin teygi anga sín í fleiri svæði á höfuðborgarsvæðinu, þó ekki liggi fyrir hvar.

Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritsjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×