Lífið

Fagnar því að hafa klárað „erfiðustu kapp­reiðar í heimi“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Atli Ísleifsson skrifa
Íslenska hestakonan Anna Guðný Baldursdóttir kauk keppni í Mongol Derby-kappreiðunum fyrr í dag.
Íslenska hestakonan Anna Guðný Baldursdóttir kauk keppni í Mongol Derby-kappreiðunum fyrr í dag. Mongol Derby

Íslensk hestakona lauk keppni í erfiðustu kappreiðum í heimi í dag. Hún er ánægð með að hafa náð að ljúka keppninni og mun fagna árangrinum í kvöld.

Íslenska hestakonan Anna Guðný Baldursdóttir lauk keppni í erfiðustu kappreiðum í heimi í Mongólíu í dag. Kappreiðarnar Mon­g­ol Der­by snúast um að vera fyrstur til að fara þúsund kílómetra hring en alls hefur keppandinn tíu daga til að klára keppnina.

„Samt eru fullt af reglum sem snúa að velferð hestsins sem passa upp á að fólk geti ekki gengið gjörsamlega fram af hestunum. Þannig að þetta snýst um að vera fljótastur, en samt hestvænn,“ segir Anna Guðný.

Heildarvegalengd kappreiðanna eru þúsund kílómetrar. Keppnin hófst í höfuðborginni Ulan Bator þann 4. ágúst og lauk í dag. Vísir

Ekki alltaf á sama hestinum

Anna Guðný segir að í keppninni megi bara ríða milli klukkan sjö á morgnana og sjö á kvöldin. Einungis megi vera með fimm kíló af farangri og knapinn megi ekki vera þyngri en 85 kíló með búnaði. Hún segir að maður sé ekki á sama hesti allan tímann. 

„Á leiðinni eru 28 stöðvar með hestum, startstöðvar, og í hvert skipti dregur maður hest og fer þá legginn. Hver leggur er svo 25 til í mesta lagi 40 kílómetrar. Hvað maður dregur er bara rosalega mismunandi.“

Upp og niður

Anna Guðný segir að kappreiðarnar hafi verið „upp og niður“. „Það voru leggir þar sem gekk rosalega vel. Það var einhver leggur þar sem ég dró bara þvílíkt „fit“ og flottan hest. Ég man ekki hvað leggurinn var langur nákvæmlega en tilfinningin var sú að hann gæti tekið annan. Hann hafði engan áhuga á að feta í lokin, var léttur á sér og lipur.

Ég fór tvisvar sinnum af hesti og bæði skiptin var það ekki þannig að mér var hent af. Hesturinn datt eftir að hafa prjónað og í hitt skiptið rann hnakkurinn fram af. Það var fólk sem datt ítrekað af og lenti í alls konar vandræðum.

Mér líður vel með árangurinn og lenti ekki í neinum miklum vandræðum. Draumurinn var að klára og það hefði verið sárt að lenda í vandræðum og þurfa að hætta. Stundum kemur bara eitthvað upp á. Fólk dettur af baki, hestur fælist eða eitthvað eins og getur gert hvar og hvenær sem er. Ef maður brýtur handlegginn þá er maður ekkert að fara að klára þúsund kílómetra. Það er bara staðreynd. Ég er bara rosalega sátt að hafa klárað og líða vel allan tímann,“ segir Anna Guðný.

Fínn árangur að klára keppnina

Anna Guðný lenti sjálf í nítjánda sæti en segir helsta afrekið vera að klára keppnishringinn.

„Það gengur vel ef þú klárar. Við byrjuðum fjörutíu og fimm og tuttugu og átta náðu að klára í því sem er kallað „race class“,“ segir Anna Guðný. „Þannig að þótt að nítjánda sætið hljómi ekki rosalega hátt, þá er það samt bara fínn árangur að ná að klára keppnina.“

Anna Guðný er annar Íslendingurinn til að taka þátt í keppninni en Aníta Margrét Aradóttir keppti fyrst árið 2014. Anna Guðný segir áhuga hennar á að taka þátt hafa vaknað þegar hún fylgdist með Anítu í keppninni.

„Þetta var bara búið að vera draumur. Ég held að ég hafi haft almennan áhuga á Mongólíu mjög lengi. Öll þessi menning í kringum hestana, þessi tenging hirðingjanna, þessi tenging við náttúruna hér.“

Fylgdist vel með Anítu árið 2014

Anna Guðný segist hafa fylgst vel með Anítu Margréti þegar hún fór í kappreiðarnar 2014. „Þegar ég vaknaði á nóttunni var ég að fylgjast með hvort hún væri enn á ferðinni og hvernig henni gengi. Ég var þá mjög spennt að fylgjast með hvort hún væri ennþá á baki. Þá kynnti ég mér keppnina svolítið vel – um hvað hún snerist og hvernig hún væri. Ég hugsaði: Vá þetta er alvöru ævintýri!“

Í kvöld munu svo keppendurnir fagna árangrinum saman í kveðjupartýi. „Það á að vera eitthvað svakalegt stuð. Einhver sagði að það yrði karókí, en allavega… Þetta verður eitthvað gaman,“ segir Anna Guðný Baldursdóttir, hestakona.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.