Enski boltinn

For­stjóri Liverpool þakkar stuðnings­mönnum sem hjálpuðu hver öðrum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Billy Hogan hefur verið forstjóri Liverpool FC síðan 2020. 
Billy Hogan hefur verið forstjóri Liverpool FC síðan 2020.  Liverpool FC

Forstjóri Liverpool, Billy Hogan, ávarpaði stuðningsmenn félagsins í morgun, eftir að bíl var ekið inn í skrúðgöngu í borginni í gærkvöldi.

Billy sendi samúðarkveðjur fyrir hönd félagsins til allra þeirra sem hlutu skaða af atvikinu í gærkvöldi. Hann sagði helgina hafa einkennst af fögnuði og gleði, þar til gleðin tók skyndilega endi með hryllilegum hætti.

Billy þakkaði viðbragðsaðilum og öllum þeim sem komu til aðstoðar. Þá þakkaði hann einnig stuðningsmönnum „sem urðu vitni að atvikinu og hjálpuðu hver öðrum eftir fremsta megni.“ Að lokum sagði hann félagið í fullu samstarfi við yfirvöld, til aðstoðar í rannsókninni.

Leikmenn Liverpool hafa ekki tjáð sig opinberlega um atvikið en þónokkrir fyrrum leikmenn og þjálfarar Liverpool hafa sent frá sér kveðjur á samfélagsmiðlum.

Jurgen Klopp, sem lét af störfum sem þjálfari Liverpool fyrir ári síðan, var viðstaddur skrúðgönguna ásamt fjölskyldu sinni. 

Sparkspekingurinn og fyrrum varafyrirliði Liverpool, Jamie Carrager, var einnig viðstaddur skrúðgönguna.

Robbie Fowler, sem er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool, sendi stuðningsmönnum einnig kveðju.

Kenny Dalglish, oft nefndur konungur Liverpool, fyrrum leikmaður og þjálfari liðsins, segir stuðningsmannalagið You‘ll never walk alone aldrei hafa verið eins viðeigandi. Hann ræddi við breska ríkisútvarpið og sagði alla Liverpool fjölskylduna standa með þeim sem hlutu skaða af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×