Körfubolti

Körfuboltakvöld í á­falli yfir vörn Álfta­ness: „Bara kjána­legt að horfa á þetta“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hermann Hauksson hefur sjaldan séð annað eins og varnarleik Álftaness í gærkvöldi
Hermann Hauksson hefur sjaldan séð annað eins og varnarleik Álftaness í gærkvöldi sýn skjáskot

Álftanes var flengt fastar en nokkuð annað lið í sögu efstu deildar karla í körfubolta þegar Tindastóll kom í heimsókn í gærkvöldi.

Stólarnir settu fjölmörg met þegar þeir skoruðu 137 stig gegn aðeins 78 stigum heimaliðsins. Sigurinn var sá stærsti, stigin voru þau flestu og Stólarnir gerðu þetta allt saman á útivelli. 

„Þetta er ótrúlegt“ sagði Stefán Árni Pálsson þegar hann skoðaði sóknartölfræði Tindastóls, sem skoraði úr tuttugu þriggja stiga skotum.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Tindastóls á síðasta tímabili og núverandi sérfræðingur Körfuboltakvölds, vildi þó ekki meina að það hafi verið hittni Stólanna fyrir utan sem drap Álftirnar á Nesinu í gær.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Tindastóll skorar úr tuttugu þristum og þegar það gerist fá hin liðin oftast svona hundrað stig á sig. En í kvöld voru Stólarnir bara að komast, trekk í trekk, á körfuna og skrúfa hann þægilega ofan í. Enginn að pressa á þá, þannig að þeir voru troðandi og að leggja boltann ofan í hvað eftir annað.

Stólarnir skoruðu ekki svona mikið af því að þeir hittu öllu ofan í fyrir utan, þeir fengu bara veislu sem ég vissi ekki að Álftanes ætti til. Því þó það hafi gengið illa hjá þeim á Álftanesi, þá hafa þeir verið að spila fína vörn“ sagði Benedikt.

Hermann Hauksson tók undir með Benedikt og sagðist aldrei hafa séð annan eins varnarleik.

„Það var bara kjánalegt að horfa á þetta“ sagði Hermann en spjall þeirra þriggja má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld í áfalli yfir vörn Álftaness



Fleiri fréttir

Sjá meira


×