Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við forstjórann Boga Nils Bogason og sýnt frá komu fyrstu Airbus-þotu Icelandair til Íslands þann 3. desember síðastliðinn. Icelandair stefnir að því að vera komið með fjórar Airbus-þotur fyrir næsta sumar og sjö fyrir þarnæsta sumar en þær munu leysa Boeing 757-þoturnar af hólmi.

Þessar fyrstu sjö Airbus-þotur vera allar leiguþotur af gerðinni A321 LR. Icelandair hefur jafnframt gert samning um kaup og kauprétt á allt að 25 Airbus A321 XLR-þotum og verða þær fyrstu afhentar árið 2029.
En þá vaknar sú spurning: Verður Boeing 767-breiðþotunum einnig skipt út?

Icelandair rekur núna þrjár slíkar farþegaþotur og eina fraktþotu. Boeing 767-breiðþotur henta vel í samrekstri með 757 þar sem flugmenn geta auðveldlega hoppað á milli tegundanna.
Sama gildir hjá Airbus, eins og sást hjá Wow Air þegar það rak Airbus A330 breiðþotur samhliða Airbus A320-þotum. Það virðist því vera rökrétt hjá Icelandair að skipta einnig yfir í Airbus-breiðþotur.

Hluti af greiningarvinnu félagsins framundan verður þó að meta hvort áfram verði þörf á breiðþotum.
„Við höfum tækifæri til þess að fara alveg yfir í Airbus-flota og það er ákveðinn einfaldleiki í því,“ segir Bogi Nils, forstjóri Icelandair, en segir það einnig góðan valkost að reka Boeing 737 MAX-þoturnar áfram.

„En við höfum líka tækifæri til þess að vera með MAX-vélarnar, sem hafa reynst okkur frábærlega og henta Icelandair mjög vel á austurströnd Bandaríkjanna og inn til Evrópu,“ segir Bogi ennfremur en nánar má heyra greiningu hans hér í frétt Stöðvar 2: