Ástæðan fyrir brottvísun Klein hefur verið nokkuð óljós en má rekja til þess að kvörtunar starfsmanns við framleiðslu baksviðs þess efnis að Klein hefði hótað honum. Jimmy Moodin, talsmaður sænsku lögreglunnar, tjáði Guardian að rannsókn málsins væri lokið og ákvörðun um ákæru væri handan við hornið, innan næstu tveggja vikna.
Moodin vildi ekki tjá sig hvers eðlis hótunin væri. Sænskir miðlar telja líklegast að Klein hljóti sekt verði hann ákærður og sakfelldur fyrir hótunina.
Hollenska sjónvarpið lýsti yfir hneykslan sinni vegna brottvísunar og sagði Klein hafa framkvæmt „ógnandni hreyfingu“ gagnvart kvikmyndatökukonu en ekki snert hana. Klein hefði verið myndaður í óþökk við fyrirliggjandi samkomulag og brugðist illa við.
Alls konar vesen í Malmö
Samband evrópskra ríkissjónvarpsstöðva (EBU), sem stendur að Eurovision, sagði í yfirlýsingu í gær vonbrigði hve margar þjóðir hefðu ekki haft reglur í heiðri varðandi stríðsátökin á Gasa.
„Við ræddum við nokkrar þjóðir á meðan hátíðinni stóð vegna ýmissa atriða sem okkur var bent á,“ sagði í yfirlýsingu EBU.
Portúgal kvartaði yfir hve langan tíma tók að birta framlag þeirra, í flutningi Iolöndu, á YouTube. EBU svaraði því til að vandamálið hefði verið að neglur hennar hefðu verið málaðar til stuðnings Palestínu. Þá kvartaði Bambie Thug frá Írlandi yfir umfjöllun um lag Írlands í ísraelska sjónvarpinu.
Ýmsir keppendur lýstu andrúmsloftinu baksviðs sem ömurlegu og spennuþrungnu. Tugþúsundir mótmæltu á götum Malmö og kölluðu eftir vopnahlé á Gasa.
Kvöldið einfaldlega áfall
Eden Golan, fulltrúi Ísraels, sagði á Instagram að keppninni lokinni að það væri lygi að halda því fram að það hefði verið auðvelt að keppa.
„En með stuðningi ykkar og ást fann ég styrk til að halda áfram og ná fram minni allra bestu frammistöðu.“
Ísrael fékk næstflest stig í símakosningu en dómarar um alla Evrópu gáfu framlaginu fá stig. Íslendingar veittu Ísrael átta stig í símakosningu.
Silvester Belt frá Litháen, sem var á eftir Ísrael í röðinni á úrslitakvöldinu, lýsti kvöldinu sem hálfgerðu áfalli.
„Að vera næst í röðinni á eftir þessu landi, með þessa spennu meðal áhorfenda, er eitthvað það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Ég gerði það besta sem ég gat miðað við aðstæður.“
Nemo frá Sviss, sem stóð uppi sem sigurvegari í keppninni, sagði að það þyrfti að laga hitt og þetta þegar kæmi að Eurovision. Þá gagnrýndi Evrópuráðið þá ákvörðun EBU að banna áhorfendum að flagga Evrópusambandsfánanum á úrslitakvöldinu.