Innlent

Þyrlu­sveit og sjó­björgunar­sveitir ræstar út vegna vélar­vana flutninga­skips

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út ásamt áhöfninni á varðskipinu Freyju laust fyrir klukkan þrjú í nótt, vegna vélarvana flutningaskips. 

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Gæslunni.

Þar segir að flutningaskipið, sem er erlent, hafi orðið vélarvana um það bil fjórar sjómílur út af Rifstanga. Auk þess að kalla út þyrlusveitina og sjóbjörgunarsveitir var íslenskt togskip í nágrenninu einnig beðið að halda á staðinn.

Flutningaskipið rak í átt að landi en áhöfninni tókst að stöðva rekið með því að láta akkeri skipsins falla. Skipið er nú um þrjár sjómílur frá landi og akkeri þess sagt halda.

„Vindur er hægur á staðnum og ölduhæð um tveir metrar. Þegar mesta hættan var liðin hjá voru sjóbjörgunarsveitir Landsbjargar afturkallaðar ásamt togskipinu sem var til taks á staðnum. Gert er ráð fyrir að varðskipið Freyja verði komið á staðinn eftir hádegi,“ segir í tilkynningunni.

Á þeim tímapunkti verði tekin ákvörðun með útgerð skipsins um með hvaða hætti það verður dregið af staðnum. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sé í viðbragðsstöðu á Akureyri ef á þarf að halda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×