Meistararnir komnir á toppinn

Getty/Joe Prior

Manchester City er komið í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir afar öruggan 5-1 sigur gegn Luton Town. 

Manchester City var með undirtökin eins og búast mátti við. Þeir slógu meira að segja deildarmet í fyrri hálfleik fyrir flestar snertingar í vítateig andstæðinganna.

Þeir voru heldur ekki lengi að skora. Markið kom strax á 2. mínútu leiksins, þá hafði Erling Haaland sloppið einn gegn markverði Luton sem varði í tvígang. Þriðja tilraun Haaland var svo á leiðinni framhjá en Daiki Hashioka, varnarmaður Luton, fékk boltann í andlitið og þaðan skaust hann í netið.

Afar óheppilegt atvik

Mateo Kovacic tvöfaldaði svo forystuna á 65. mínútu. Markið kom eftir hornspyrnu sem barst til Kovacic rétt utan við teiginn. Skoppandi bolti sem hann klippti meðfram jörðinni og í netið.

Erling Haaland skoraði svo þriðja og síðasta mark City úr vítaspyrnu sem Jeremy Doku fiskaði. Hans tuttugasta deildarmark á tímabilinu.

Luton klóruðu í bakkann undir lokin og minnkuðu muninn í 3-1. Ross Barkley kom boltanum í netið eftir mistök í öftustu línu City.

Það beit þó ekkert á heimamenn sem bættu fjórða og fimmta markinu við skömmu síðar. Jeremy Doku var fyrst á ferðinni með laglega afgreiðslu eftir að hafa sólað varnarmann upp úr skónum. Josko Gvardiol rak svo smiðshöggið rétt áður en flautað var til leiksloka.

Sigurinn hleypir Manchester City upp í efsta sæti deildarinnar. Tveimur stigum á undan Arsenal og Liverpool sem spila á morgun gegn Aston Villa og Crystal Palace.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira