Lífið

Angie Harmon segir matvörusendil hafa drepið hundinn sinn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Harmon segist hafa verið á heimilinu ásamt dætrum sínum þegar hundurinn var skotinn. 
Harmon segist hafa verið á heimilinu ásamt dætrum sínum þegar hundurinn var skotinn.  EPA

Leikkonan Angie Harmon sakar matvörusendil frá dreifingarfyrirtækinu Instacart um að hafa skotið hund sinn til bana um helgina. 

Harmon er þekktust fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Law & Order og Rizzoli & Isles. Í færslu á Instagram greinir hún frá dauða fjölskylduhundsins Olivers. Hún segir sendil frá sendifyrirtækinu Instacart hafa ráðið honum bana við heimili þeirra í Norður Karólínu í Bandaríkjunum. 

Instacart er sendingaþjónusta sem sendir matvörur frá verslunum á borð við Walmart og Costco heim til fólks. 

„Sendill frá Instacart skaut á og drap elsku Oliver okkar. Maðurinn steig út úr bílnum sínum, afhenti sendinguna og skaut síðan hundinn okkar,“ segir Harmon í færslu á Instagram.

„Lögreglan leyfði honum að fara vegna þess að hann sagðist hafa verið að beita sjálfsvörn þegar hann skaut hundinn. Það var hvorki skrámu né bitfar að finna á honum auk þess sem buxurnar hans voru ekki rifnar,“ bætir hún við. 

Hún segir öryggismyndavél þeirra ekki hafa verið í hleðslu og verknaðurinn því ekki náðst á mynd. 

„Við erum í algjöru áfalli og niðurbrotin vegna missisins,“ skrifar hún að lokum.

Lögreglan í Charlotte-Mecklenburg staðfestir í samtali við NBC að skotárásin hafi átt sér stað. Þá kom fram að enginn hefði verið handtekinn vegna málsins, ekki sé útlit fyrir að neinn verði ákærður og að ekki verði leitast eftir fleiri vitnum. 

Í tilkynningu frá Instacart segir að sendlinum hefði verið sagt upp störfum og að fyrirtækið væri í samskiptum við Harmon fjölskylduna vegna málsins. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×