Innlent

Bíl­stjórinn tekinn úr um­ferð hjá Pant

Lovísa Arnardóttir skrifar
Framkvæmdastjóri Hreyfils ræddi við bílstjórann í gær sem ekur ekki lengur fyrir Pant.
Framkvæmdastjóri Hreyfils ræddi við bílstjórann í gær sem ekur ekki lengur fyrir Pant.

Bílstjóri Hreyfils sem skildi fatlaðan dreng eftir við Víkingsheimilið á fimmtudag í stað þess að aka honum heim ekur ekki lengur fyrir Pant, akstursþjónustu fatlaðs fólks. Það staðfestir Haraldur Axel Gunnarsson framkvæmdastjóri Hreyfils.

Fjallað var um málið fyrr í dag en þar sagði Evelyn Rodriguez, móðir drengsins, að það sé aðeins heppni að ekki fór verr. Sonur hennar fannst í Víkingsheimilinu um hálftíma eftir að hann fór úr leigubíl frá Pant. 

Drengurinn hafði verið í skólanum í Klettaskóla og átti bílstjórinn að aka honum heim í Safamýri en skildi hann eftir við Víkingsheimilið. Þegar Evelyn kom að sækja son sinn, John Miguel, var hann afar illa haldinn og hafði misst bæði þvag og saur. Þá titraði hann og var afar hræddur. 

„Bílstjórinn sem keyrði drenginn fór ekki að fyrirmælum sem fylgdu með aksturspöntun en allar upplýsingar komu þar fram, hvert átti að sækja drenginn og áfangastaður,“ segir Haraldur sem ræddi við bílstjórann í gær. Hann segir bílstjórann ekki hafa getað útskýrt hvernig drengurinn endaði við Víkingsheimilið en ekki heima hjá sér en samkvæmt leiðbeiningum átti að að keyra hann upp að dyrum.

Bílstjórinn hefur í kjölfarið á þessu atviki verið tekinn úr þjónustu Pant.

„Hann mun ekki koma að þeirri þjónustu oftar. Málið er litið mjög alvarlegum augum og Hreyfill harmar að þetta atvik og munu verkferlar verða skoðaðir ásamt Pant eftir helgi,“ segir Haraldur Axel.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×