Innlent

„Þetta er ó­þarfa tjón“

Árni Sæberg skrifar
Hlökk Theodórsdóttir skipulagsfræðingur og Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Hlökk Theodórsdóttir skipulagsfræðingur og Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Bylgjan

Jarðeðlisfræðingur segir andvaraleysi hafa ríkt í skipulagsmálum með tilliti til náttúruvár. Til að mynda hefði verið hægt að koma í veg fyrir tjón í Grindavík.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur var gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi ásamt Hlökk Theodórsdóttur skipulagsfræðingi. Þau ræddu skipulagsmál og byggðaþróun á suðvesturhorninu í ljósi þeirra náttúruhamfara sem riðið hafa yfir undanfarið.

Páll segir þjóðina nú vera að súpa seyðið af andvaraleysi í byggðaþróun vegna þess hversu róleg tuttugasta öldin var hvað varðar náttúruvá.

„Ég er hræddur um að við höfum ekki alveg dregið réttar ályktanir, hvernig ætti að byggja þetta upp og hvaða langtímahugsun skipti máli. Síðan hafa náttúrlega riðið yfir alls konar náttúruhamfarir sem við erum að læra af hægt og rólega, að sumra mati óþarflega hægt. Við sitjum uppi með gamlar syndir sem voru drýgðar þegar menn vissu ekki betur.“

Rangar ályktanir dregnar með alvarlegum afleiðingum

Í því samhengi segir Páll að koma hefði mátt í veg fyrir það tjón sem orðið hefur í Grindavík undanfarið, ef byggð hefði verið skipulögð með tilliti til náttúruvár.

„Stundum kemur í ljós að við höfum hreinlega dregið rangar ályktanir. Ég held til dæmis að tjónið í Grindavík í sé af þessu tagi. Þetta er tjón sem við hefðum átt að gera fyrirbyggt, sem sé fyrir fram. Við getum orðað þetta þannig, ef við erum svolítið óþverraleg í hugsun, að þetta er óþarfa tjón.“

„Ekki lófastór blettur“

Hlökk segir að ærið verkefni sé að skipuleggja byggð hér á landi þar sem náttúruvá leynist víða.

„Það er nánast því, með smá ýkjum, ekki lófastór blettur sem við getum skipulagt byggð á á Íslandi þar sem er ekki ein eða fleiri náttúruvár til að takast á við og taka tillit ti,l við það hvernig við útfærum og þróum byggð. Það er eitt sem við megum ekki gleyma í þessu tilliti, af því að við erum líka að tala um eldvirkni hér, ekki bara sprungurhreyfingar, er hvað hún er nú illfyrirsjáanleg.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×