Innlent

Sér já­kvæða hlið á á­liti um­boðs­manns

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Þessar veiðar eru algjörlega hvort sem er algjör tímaskekkja,“ segir Katrín Oddsdóttir.
„Þessar veiðar eru algjörlega hvort sem er algjör tímaskekkja,“ segir Katrín Oddsdóttir. Vísir/Arnar

Katrín Oddsdóttir, lögmaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir ekki gott að skort hafi lagaheimild þegar matvælaráðherra frestaði hvalveiðum í sumar. „En það er eitthvað sem gerist reglulega á Íslandi.“

Hún segir þó jákvæðar fréttir felast í áliti Umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að útgáfa og undirbúningur reglugerðar Svandísar Svavarsdóttir hafi ekki fylgt meðalhófi. Katrín bendir á að umboðsmaður telji að það hafi verið rétt hjá Svandísi að líta til dýravelferðarsjónarmiða við ákvörðun sína.

„Þetta er sú tenging sem við höfum mörg verið að bíða eftir að verði staðfest af einhverjum óhlutdrægum aðila,“ segir Katrín.

„Hann segir að það hafi verið heimilt og rétt að líta til dýravelferðar í töku þessarar ákvarðanir. Það er svo jákvætt því það er oft þannig að þessi lög séu jaðarsett gagnvart réttindum fólks til að veiða.“

Rétt er að taka fram að fréttastofa náði tali af Katrínu þegar álitið var nýbirt og hún hafði því ekki gefið sér tíma til að lesa það allt, en hún hafði kynnt sér niðurstöðu þess.

Henni finnst ákvörðun Svandísar hafa verið rétt, en framkvæmd hennar mögulega sett einhverjum annmörkum.

„Þessar veiðar eru algjörlega hvort sem er algjör tímaskekkja. Ef Kristján Loftsson telur sig eiga einhvern bótarétt þá ætti hann bara að sækja hann. Þá sjáum við hvað setur. Ég held að hann tapi á þessum veiðum á hverju einasta ári, þannig það væri gaman að sjá hann reyna að sanna tjón sitt.“

Katrín segir sjást á niðurstöðukafla álitsins að umboðsmaður sé ekki að biðja um að Svandís verði dregin úr embætti vegna ákvörðunarinnar. „Heldur er þetta eitthvað sem hún á að nota þegar hún horfi til framtíðar þegar hún ráðstafar þessum réttindum. Ég hef trú á því að hún geri það.“

Aðspurð frekar út í möguleikann á því að afsagnar Svandísar verði krafist segist Katrín búast við því að einhverjir muni gera það. „Þessir venjulegu háttgargandi einstaklingar munu örugglega koma og krefjast alls konar hluta. Það er ekki nokkur spurning. En ef ég væri í þessari stöðu myndi ég anda rólega með nefinu og búa til betri reglur og lög um hvalveiðar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×