Innlent

Fengu boð frá neyðar­sendi en allt var í himna­lagi

Jón Þór Stefánsson skrifar
TF-SIF lendir á Reyykjavíkurflugvelli.
TF-SIF lendir á Reyykjavíkurflugvelli. Landhelgisgæslan

Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í gærkvöldi eftir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning í gegnum gervitungl um að neyðarsendir væri virkur djúpt suður af Reykjanesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, en þar kemur einnig fram að þyrlusveit gæslunnar hafi verið í viðbragðsstöðu á Reykjavíkurflugvelli vegna málsins.

Athugun varðstjóra leiddi í ljós að staðsetning neyðarsendisins væri í nágrenni við maltneska flutningaskipið Ludogerets sem var á siglingu um 114 sjómílum suðvestur af Reykjanesi.

Áhofn Ludogerets sagðist ekki sakna neins búnaðar eða mannskaps og allt væri í himnalagi um borð. Þrátt fyrir það heyrðist greinilega ísendinum þegar vél Landhelgisgæslunnar kom á svæðið.

Fram kemur að baujan sem sendi neyðarmerkið í gegnum gervitunglið sást greinilega og að stuttu seinna hafi sést ljósmerki frá neyðarsendinum. Þá segir að ekkert annað hafi sést á floti í nágrenninu.

Flugferill TF-Sifjar.Landhelgisgæslan

Eftir samskipti stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og samhæfingarstöðvarinnar í Portúgal kom í ljós að umræddur neyðarsendir var skráður á flutningaskip sem áður hét Macaran en bæri nú nafnið Ludogerets. Í ljósi þessara upplýsinga þótti óhætt að kalla TF-SIF aftur til Reykjavíkur.

„Búnaður og þjálfun áhafnar hennar reyndist sérlega vel í útkallinu og sem betur fer reyndist enginn vera í hættu,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×