Innlent

Hulda Elsa að­stoðar dóms­mála­ráðu­neytið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hulda Elsa Björgvinsdóttir er kominn í ráðgjafarstarf hjá dómsmálaráðuneytinu.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir er kominn í ráðgjafarstarf hjá dómsmálaráðuneytinu. Vísir/Vilhelm

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið fengin til að miðla af sérþekkingu sinni innan dómsmálaráðuneytisins.

Þetta staðfestir Fjalar Sigurðarson upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins við fréttastofu.

Í svari hans segir að Hulda Elsa sé tímabundið að aðstoða dómsmálaráðuneytið við frumvarpsgerð á sviði löggæslu og leggi þar til sína sérfræðiþekkingu.

„Um tímabundna verkefnavinnu er að ræða og hefur Hulda Elsa því ekki formlega stöðu innan ráðuneytisins.“

Hulda Elsa sagði starfi sínu lausu sem aðstoðarlögreglustjóri og sviðsstjóri ákærusviðs í vor eftir að hafa verið í leyfi eftir úttekt sálfræðistofu á ákærusviðinu. Mikil starfsmannavelta hafði verið á sviðinu í nokkurn tíma og höfðu ýmsir starfsmenn leitað í önnur störf eftir erfið samskipti við Huldu Elsu samkvæmt heimildum fréttastofu.

Hulda Elsa er reynslumikil þegar kemur að lögreglumálum hér á landi. Hún starfaði hjá ríkissaksóknara um ellefu ára skeið og var sviðsstjóri ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 2016. Þá var hún staðgengill lögreglustjóra frá árinu 2017 og hefur tvisvar verið settur lögreglustjóri.


Tengdar fréttir

Fimm erfið starfsmannamál litin alvarlegum augum

Fimm mál er varða kynferðislega eða kynbundna áreitni, einelti eða ofbeldi starfsfólks lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið til meðferðar hjá embættinu á árinu. Upplýsingafulltrúi lögreglu segir í öllum tilvikum hafa verið brugðist við í samræmi við reglugerð. Málin séu öll sem eitt litin alvarlegum augum. Veita á starfsfólki aukna fræðslu um mörk í samskiptum

Enn einn yfirmaður lögreglu sendur í leyfi

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er kominn í leyfi frá störfum. Þetta staðfestir embættið í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Hann er þriðji stjórnandi embættisins sem sendur er í leyfi á innan við ári.

Hulda Elsa að­stoðar­lög­reglu­stjóri komin í leyfi frá störfum

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og sviðsstjóri ákærusviðs, er kominn í leyfi frá störfum. Þetta gerist eftir að sálfræðistofa gerði úttekt hjá starfinu á ákærusviðinu og skilaði í framhaldinu skýrslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×