Innlent

Rosa­lega margir veikir og toppinum ekki náð

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðrún segir nýtt afbrigði Covid mjög smitandi en veikindin ekki meiri. Innlögnum hefur ekki fjölgað vegna þess en eru margar vegna annars konar öndunarfærasýkinga líka. 
Guðrún segir nýtt afbrigði Covid mjög smitandi en veikindin ekki meiri. Innlögnum hefur ekki fjölgað vegna þess en eru margar vegna annars konar öndunarfærasýkinga líka.  Vísir/Arnar

Mikill fjöldi fólks liggur í veikindum vegna ýmissa öndunarfærasýkinga. Nýtt afbrigði Covid er mjög smitandi en veldur ekki alvarlegri veikindum. Sóttvarnalæknir segir þátttöku í bólusetningum vegna Covid og inflúensu undir væntingum þetta haustið. 

Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir, segir greiningum á ýmsum veikindum hafa fjölgað mikið undanfarið. En það sé þó eðlilegt á þessum árstíma.

„Það hefur verið bæði Covid, inflúensa sem er komin af stað og RS vírus og ýmsar aðrar öndunarfærarsýkingar og veirur, aðallega.“

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint nýtt afbrigði af Covid, JN.1, sem eitt af þeim sem eigi að fylgjast með. Það sé mjög smitandi en að bóluefnin sem til eru veiti vörn. Fjallað var um það á vef BBC í vikunni. 

„Afbrigðið er ekki skæðara. Það hefur ekki verið sýnt fram á meiri veikindi með þessu afbrigði eins hefur verið undanfarið þegar það koma ný afbrigði. Það hefur ekki haldist í hendur við aukin veikindi vegna afbrigðisins í sjálfu sér. En það er rétt að það hafa verið að koma ný afbrigði og nú er þetta afbrigði orðið algengt,“ segir Guðrún og að um sé að ræða undirafbrigði Omikron.

„Þetta eru allt Omikron afbrigði. En Covid er mjög smitandi og það er að valda veikindum og ansi margir að vera mjög veikir af þessu.“

Hún segir einkennin svipuð og áður og að sem betur fer sé innlögnum ekki að fjölga. Það liggi þó margir inni af öðrum ástæðum.

„Það eru alltaf einhverjir inni með Covid. Það hefur einnig aukist að fólk er inniliggjandi með inflúensu og RS-vírus. Sérstaklega ung börn.“

Toppinum ekki enn náð

Hún segir viðbúið að ástandið verði áfram svona næstu vikur. Toppinum sé þó ekki náð. Hún hvetur fólk til að fara í bólusetningu við bæði inflúensu og Covid. Það sé enn hægt og sérstaklega mælt við því fyrir fólk eldra en 60 ára.

„Þátttakan hefur því miður ekki verið mjög góð í haust en það var aukning í síðustu viku þegar heilsugæslan var með átak og hvatti fólk til að koma. Þetta hefur hvoru tveggja verið undir væntingum og við myndum vilja sjá að hún væri betri,“ segir Guðrún og bendir á að hægt sé að fara í bólusetningu það á heilsugæslustöðvum.

Spurð hvort að Covid hafi haft áhrif á þetta segir hún það vel geta verið. Það sé jafnvel einhver þreyta í fólki á umræðu um bólusetningar og svo hafi kannski fyrirkomulagið áhrif. Það sé hægt að fara á heilsugæslustöðvar en það sé auðvitað ekki eins og var þegar á heimsfaraldri stóð. Hún segir samt mjög mikilvægt að þiggja bólusetninguna. 

„Þetta eru vel rannsökuð bóluefni og búið að nota þau fyrir milljarða fólks. Það hefur sýnt sig að þau virka og vernda gegn alvarlegum veikindum og andlátum,“ segir Guðrún. 


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×